Skoðun

Til hvers í pólitík?

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifar

Við í Garðabæjarlistanum tölum fyrir gangsærri og skilvirkari stjórnsýslu. Hana þarf að einfalda eins og kostur er og styrkja um leið vinnu nefnda og ráða. Því lagði ég fram tillögu um að taka til endurskoðunar fjölda fastanefnda, annarra nefnda, stjórna og ráða sem skipuð eru af bæjarstjórn. Skipaður yrði starfshópur með sviðstjórum og fulltrúum minni- og meirihluta, sem yrði falið að skila af sér endurmati og niðurstöðu í desember 2020. Tillagan var því miður felld af sjálfstæðismönnum í Garðabæ, enda standa þeir sem fyrr dyggan vörð um kerfið sitt.

Eftir tveggja ára setu í bæjarstjórn finnst mér full ástæða til að staldra við og meta feril mála. Allt frá pólitískri ákvarðanatöku yfir í framkvæmd á sviðum stjórnsýslunnar. Fjölmörg stór og umfangsmikil verkefni sveitarfélagsins tilheyra fleiri en einu sviði og eru rædd í fleiri en einn nefnd eða ráði. Það gefur okkur sannarlega tilefni til þess að rýna skilvirknina og tímann sem hvert og eitt mál tekur, áður en það kemst til framkvæmda.

Skipurit sveitarfélags þarfnast reglulegrar endurskoðunar í takt við breytta tíma, hraðari og faglegri þjónustu, kröfu um aukið gagnsæi og ekki síst sjálfsagða kröfu íbúa um heildstæða nálgun á mál þeirra hverju sinni.

Þess vegna taldi ég til hagsbóta að rýna stjórnsýslu Garðabæjar. Ég hef hvatt til þess að farið verði í að rýna styrkleika og veikleika þess að hafa margar litlar nefndir sem allar taka á þjónustu barna og ungmenna. Hvers vegna höfum við ekki eina öfluga fjölskyldunefnd, þar sem fulltrúar leik-, grunn- og tónlistarskóla sameina krafta sína í einni öflugri nefnd? Ég hef þá trú að þar mætti efla sýn með nálgun ólíkra aðila að því sem máli skiptir þegar kemur að þjónustu við börn og ungmenni og tengja enn betur við annað mikilvægt svið, félagsþjónustuna sem veitir fjölskyldum mikilvæga þjónustu. Styrkjum stoðir samfélagsins og horfum til framtíðar og framfara. Til þess erum við í pólitík.

Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans í bæjarstjórn Garðabæjar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Ógn og öryggi í Vestur­bæ

Halla Helgadóttir,Sigríður Magnúsdóttir,Ásdís Hlökk Theodórsdóttir,Auður Karítas Ásgeirsdóttir skrifar

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.