Viðskipti erlent

Ninja og Shroud leika lausum hala eftir lokun Mixer

Samúel Karl Ólason skrifar
Ninja, eða Tyler Blevins, er líklegast vinsælasti streymari heimsins. Hann og Shroud, annar vinsæll streymari, standa nú frammi fyrir vali um að snúa sér að Facebook Gaming eða fara aftur á Twitch.
Ninja, eða Tyler Blevins, er líklegast vinsælasti streymari heimsins. Hann og Shroud, annar vinsæll streymari, standa nú frammi fyrir vali um að snúa sér að Facebook Gaming eða fara aftur á Twitch. Getty/Michael Owens

Microsoft hefur tekið þá ákvörðun að loka leikjastreymisþjónustunni Mixer í júlí og stefnir á að flytja samstarfsaðila sína yfir til Facebook Gaming. Microsoft hafði gert samninga við tvo af stærstu „streymurum“ heimsins, þá Ninja og Shroud. Það hafði þó ekki dugað til við að fá þann áhorfendafjölda sem Microsoft vonaðist eftir. Ninja, Shroud og aðrir sem notuðust við Mixer munu nú geta valið hvort þeir snúi sér aftur að Twitch eða notist við Facebook Gaming.

Þjónustunni verður lokað að fullu þann 22. júlí og á þá að vera búið að færa streymara og notendur Mixer yfir til Facebook Gaming.

Markmið Microsoft var ekki eingöngu að ná fótfestu á streymismarkaðinum heldur einnig að byggja upp notendagrunn fyrir xCloud leikjaveituna. Starfsmenn Microsoft munu nú vinna með Facebook að því að tengja XCloud við samfélagsmiðilinn, samkvæmt frétt Verge. Þannig munu þeir sem horfa á streymi á Facebook geta smellt á takka og byrjað að spila sama leik í gegnum xCloud.

Hugmyndin er svipuð og Google stadia en ekki liggur fyrir hvenær xCloud verður opinberað.

Eins og áður segir áttu Ninja og Shroud að laða að notendur. Þó þeir njóti gífurlegra vinsælda gekk það ekki eins og vonast var til. Með samstarfinu við Facebook er vonast til þess að Microsoft geti náð til mun fleiri aðila.

Einhverjir hafa tekið þá ákvörðun að færa sig yfir til Facebook en bæði Ninja og Shroud hafa ekki tekið ákvörðun. Microsoft hafði greitt þeim báðum háar upphæðir til að fá þá frá Twitch.

Báðir hafa tjáð sig á Twitter og segja að þeirra bíði stór ákvörðun.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×