Viðskipti innlent

Segja tilkynninguna ekki tengjast þætti Kveiks

Samúel Karl Ólason skrifar
Tilefni yfirlýsingarinnar er fréttaflutningur um að atvinnuvegaráðuneytinu hefi ekki verið tilkynnt um kaupin fyrr en í nóvember.
Tilefni yfirlýsingarinnar er fréttaflutningur um að atvinnuvegaráðuneytinu hefi ekki verið tilkynnt um kaupin fyrr en í nóvember. Vísir/Vilhelm

Kaupsamningur vegna hlutabréfa Samherja, sem eigendur félagsins framseldu til barna sinna, var undirritaður í ágúst í fyrra. Kaupin gátu hins vegar ekki gengið í gegn fyrr en ákveðnum fyrirvörum hafði verið aflétt og var það í nóvember. Þá býr Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más, forstjóra, í Hollandi og er þess vegna talinn vera erlendur aðili í skilningi laga. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Samherja.

Tilefni yfirlýsingarinnar er fréttaflutningur um að atvinnuvegaráðuneytinu hefi ekki verið tilkynnt um kaupin fyrr en í nóvember. Nokkrum dögum áður en Kveikur sýndi rannsókn sína á umdeildum umsvifum Samherja í Namibíu, sem meðal annars varð til þess að Þorsteinn Már steig tímabundið til hliðar sem forstjóri Samherja.

Kjarninn sagði frá tilkynningunni og aðrir miðlar einnig. Í yfirlýsingu Samherja er Kjarninn og Ríkisútvarpið teknir fyrir sérstaklega.

„Var framsetning beggja miðla með þeim hætti að tilgangurinn var augljóslega sá að gera breytingar á eignarhaldi Samherja hf. tortryggilegar með því að gefa í skyn að þær tengdust fjölmiðlaumfjöllun um starfsemina í Namibíu,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir ennfremur að forsvarsmenn Samherja hafi komist að því hvað þáttur Kveiks fjallaði um þann 25. október. Vinna við breytingar á eignarhaldi Samherja hafi staðið yfir í tvö ár. Því sé ljóst að tilkynningin til ráðuneytisins tengist þættinum ekki neitt.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×