Skoðun

Bæjar­stjórinn með um­ferðar­flautuna

Guðmundur Ari Sigurjónsson skrifar

Þetta kjörtímabil hefur ekki verið gott fyrir meirihluta Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi, tekjur hafa ekki dugað fyrir útgjöldum og bærinn hefur margfaldað skuldir sínar. Vegna ofurtrú á því að Seltirningar megi ekki borga jafn hátt útsvar og íbúar í Kópavogi og Hafnarfirði þá hefur meirihlutinn gripið til sársaukafullra aðgerða. Leikskólagjöld, matarkostnaður eldri borgara og leiga á félagslegu húsnæði hefur hækkað um tugi prósenta. Skorið var niður í grunnskólanum svo bekkir stækka, í tónlistarskólanum svo biðlisti lengist, 40% af stöðugildum félagsmiðstöðvarinnar voru skorin út, starfsfólki sagt upp og ofan á þetta bætist nú Covid ástandið.

Þessar aðgerðir hafa ekki aukið stuðning við Sjálfstæðisflokkinn á Seltjarnarnesi sem hefur verið minnkandi í síðustu kosningum en flokkurinn fékk í fyrsta sinn frá stofnun sveitarfélagsins minnihluta atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum 2018.

En þegar öll spjót standa að bæjarstjóranum þá getur verið gott að eiga patent lausnir á lager til að dreifa umræðunni og að þessu sinni var blásið í umferðarflautuna. Bæjarstjórinn fór í blöðin og kvartaði yfir viðtali við formann skipulagsnefndar þar sem kom fram að áætlað væri að setja upp 6 ljósastýrðar gönguþveranir yfir Eiðisgrandann. Umferðarflautan virkaði vel og áður en maður vissi af voru stjörnulögmenn á Seltjarnarnesi farnir að rífast við sjónvarpsmenn úr Reykjavík og að lokum fór umræðan að sjálfsögðu út í það að tala um umræðuna sjálfa og að hún væri allt of harkaleg.

Ég viðurkenni að þrátt fyrir að ég sé sammála um að bæta mætti tengingar fyrir gangandi vegfarendur á Eiðisgrandanum þá þótti mér 6 umferðarljós ansi vel í lagt á stuttum kafla. Ég hafði því samband við borgina og kom þá í ljós að hér var á ferð misskilningur á milli blaðamanns og borgarfulltrúans og þessar 6 gönguþveranir séu aðeins þær gangbrautir sem eru nú þegar til staðar og ein þeirra er ljósastýrð og hefur verið síðastliðin 7 ár.

Helsta inntak í gagnrýni bæjarstjórans á borgina var skortur á samráði og samtali en eins og þetta mál sýnir, að þá er mikilvægt að samtalið sé opið í báðar áttir og hefði bæjarstjórinn getað hlíft íbúum bæjarins við óþarfa áhyggjum og karpi ef hún hefði farið eftir eigin ráðum og átt samtal við borgina áður en hún rauk í blöðin. En á meðan við ræðum um gönguljós er ekki talað um niðurskurð á þjónustu við bæjarbúa svo kannski náði bæjarstjórinn einfaldlega sínum markmiðum.

Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingar á Seltjarnarnesi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×