Körfubolti

Gagnrýnir Kyrie Irving fyrir að reyna koma í veg fyrir endurkomu NBA-deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kyrie er í dag leikmaður Brooklyn Nets líkt og Kevin Durant.
Kyrie er í dag leikmaður Brooklyn Nets líkt og Kevin Durant. Mike Stobe/Getty Images

Kyrie Irving, eitt af stærstu nöfnum NBA-deildarinnar, vill aflýsa tímabilinu eins og það leggur sig. Leikmenn deildarinnar eru ekki allir par sáttir með þá umræðu en þó eru sumir sammála Kyrie.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð NBA og hvernig liðið bregst annars vegar við þeim fjárhagslegu örðugleikum sem fylgja kórónufaraldrinum. Þá hefur morðið á George Floyd einnig leitt til margra spurninga en leikmenn deildarinnar hafa verið duglegir að nýta rödd sína í kjölfar þess.

Austin Rivers, leikmaður Houston Rockets, hefur gagnrýnt þessa hugmynd Kyrie einfaldlega vegna þeirra gífurlega upphæða sem bæði leikmenn og félög deildarinnar verða af.

„Með því að snúa aftur fáum við, leikmenn deildarinnar, mun meiri pening í okkar vasa. Með þeim pening væri hægt að hjálpa fólki sem á erfitt enn frekar, það væri hægt að styðja „Svört líf skipta máli“ hreyfinguna. Það er eitthvað sem ég styð 100 prósent af því við þurfum breytingar í samfélaginu okkar. Svo veit ég að 99 prósent af öllum leikmönnum NBA-deildarinnar þurfa á launatékkanum að halda til að lifa af.“

„Meiri hluti leikmanna í deildinni eru svartir Bandaríkjamenn og áhorfendurnir líka. Það er mikilvægt fyrir okkur að búa til skemmtun ásamt því að vera fyrirmyndir.“

„Ég elska ástríðuna sem Kyrie hefur fyrir hreyfingunni – Svört líf skipta máli – og ég er með honum í því en á réttum forsendum. Það má samt ekki eyðileggja feril leikmanna. Við hljótum að geta gert bæði, spilað og hjálpað til við að breyta þeim aðstæðum sem svart fólk býr við. Leikmenn deildarinnar vilja spila, hjálpa til og breyta því sem þeir geta,“ sagði Austin.

NBA-deildin mun fara af stað þann 31. júlí en allir leikir sem eftir eru verða leiknir í Disney World.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×