Viðskipti erlent

Stærstu flugfélög Norðurlanda skulda milljarða

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Flugvél SAS á Keflavíkurflugvelli.
Flugvél SAS á Keflavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm

Tvö stærstu flugfélög Norðurlandanna, SAS og Norwegian, skulda viðskiptavinum um sjö milljarða danskra króna. Frá þessu er greint á vef danska ríkisútvarpsins, DR.

Ástæða hárra skulda flugfélaganna er sögð vera ferðir sem felldar voru niður vegna faraldurs kórónuveirunnar sem valdið getur sjúkdómnum Covid-19. DR hefur eftir norskum fjölmiðlum að ferðir sem fara átti í mars verði endurgreiddar í þessum mánuði. Hins vegar verði ferðir sem fara átti í apríl og maí ekki endurgreiddar fyrr en í haust.

Þá er greint frá því að SAS komi til með að þurfa að endurgreiða um 4,6 milljarða norskra króna, eða rúma 64 milljarða íslenskra króna, vegna ferða sem felldar hafa verið niður. Eins segir að Norwegian hafi fellt niður ferðir fyrir allt að 2,5 milljarða norskra króna, eða um 35 milljarða króna.

Þeir fjármunir sem SAS hefur undir höndum nú eru mun minni en sú upphæð sem félagið kemur til með að þurfa að endurgreiða. John Eckhoff, upplýsingafulltrúi félagsins, hefur hins vegar lýst því yfir að viðskiptavinir muni geta fengið endurgreitt, óski þeir eftir því. Hann bendir á að SAS í Svíþjóð og Danmörku hafi fengið ríkisstuðning upp á tæpan 41 milljarð íslenskra króna, og unnið sé að því að afla meira fjár.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×