Viðskipti innlent

Vélmenni hrista kokteila á Hafnartorgi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Það eru ekki mennskir barþjónar heldur vélmenni sem hrista kokteila á nýjum stað sem var opnaður á Hafnartorgi nýverið.

Það er fyrirtækið Glacierfire sem rekur staðinn sem er sá fyrsti sinnar tegundar hjá fyrirtækinu í Evrópu en stefnan er að opna fleiri staði víðar um álfuna. Eigendur fyrirtækisins eru frá Úganda og Suður Afríku en þeir opnuðu staðinn í samstarfi við íslenskan viðskiptafélaga í lok mars. Ríflega tveimur milljónum Bandaríkjadala hefur verið fjárfest í stofnkostnað en um 70% af starfsemi og þjónustu staðarins, sem ber nafnið Ice + Fries, þarfnast engra beinna mannlegra samskipta.

Þegar pöntun hefur verið staðfest í sjálfsafgreiðsluvélum taka vélmenni við og hrista drykkina. Það tekur vélmennin Ragnar og Fróða eina til tvær mínútur að útbúa drykk, afgreiðslutíminn getur þó verið töluvert lengri þegar mikið er að gera.

Einnig er hægt að panta mat en á næstunni stendur til að bjóða upp á nokkra rétti af þrívíddarprentuðum mat sem yrði þá í fyrsta sinn á Íslandi. Gervigreind sér þó ekki ein um alla vinnuna en átta manns eru í fullu starfi hjá fyrirtækinu á Íslandi, átta til viðbótar eru í hlutastarfi og nokkrir í verktöku.

Í samtali við fréttastofu segist eigandinn Priyesh Patel vera bjartsýnn á að reksturinn muni ganga vel, þótt tímasetning opnunarinnar hafi verið óvenjuleg í ljósi kórónuveirufaraldursins. Hann hafi mikla trú á viðskiptalíkaninu en gervigreindin hjálpi til við að auka framleiðni.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.