Viðskipti innlent

Gjaldþrot aukast og margir biðja um greiðslufresti á lánum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Gjaldþrotum hefur fjölgað um tæpan þriðjung milli ára samkvæmt gögnum Hagstofunnar. 
Gjaldþrotum hefur fjölgað um tæpan þriðjung milli ára samkvæmt gögnum Hagstofunnar.  Vísir/Hafsteinn

Gjaldþrotum fyrirtækja fjölgaði um tæpan þriðjung milli ára. Þá hafa fimm til sex þúsund einstaklingar farið fram á greiðslufrest lána hjá fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum. Formaður Samtaka fjármálafyrirtækja telur bankana hafa getu til að leggjast á árarnar með fyrirtækjum og heimilum.

Kórónuveirufaraldurinn hefur valdið gríðarlegum áhrifum hjá heimilum og fyrirtækjum í landinu. Frá og með 23. mars gátu fyrirtæki sótt um tímabundna greiðslufresti á lánum hjá lífeyrissjóðum og fjármálastofnunum vegna faraldursins. 

Frá þeim tíma hafa ríflega 1700 fyrirtæki sótt um greiðslufrest lána  og milli 5-6 þúsund einstaklingar.

Margir að endurfjármagna lán

Seðlabankinn hefur frá áramótum lækkað stýrivexti um tvö prósentustig og í dag tilkynntu Íslandsbanki og Landsbanki um vaxtalækkanir.

Fréttastofa sendi fyrirspurn á banka og lífeyrissjóði um hversu margir hafa endurfjármagnað fasteignalán sín í ljósi vaxtalækkana undanfarna mánuði. Þau svör fengust hjá Landsbanka og Arion banka að eftirspurn eftir því hafi aukist. Hún jókst um tæpan þriðjung hjá Íslandsbanka og um 60% hjá Lífeyrissjóðnum Birtu.  Brú, Gildi og Almenni lífeyrisjóðurinn hafa fengið á annað hundrað beiðnir um endurfjármagnanir en Lífsverk um 30.

Fréttastofa sendi fyrirspurn á fjármálastofnanir og lífeyrissjóði um hversu margir einstaklingar hafa sótt um að endurfjármagna lán sín í ljósi vaxtalækkana undanfarið og fékk þessi svör. Visir/Hafsteinn

Frá því kórónuveirufaraldurinn hófst hér í febrúar og út apríl hafa gjaldþrot fyrirtækja aukist um tæpan þriðjung frá sama tímabili í fyrra. Flest fyrirtækin eru í byggingastarfsemi og í rekstri gististaða og veitingarekstri.

Katrín Júlíusdóttir framkvæmdastjóri SFF segir fjármálastofnanir vel í stakk búnar til að takast á við vandann í efnahagslífinu.Vísir/Baldur

Katrín Júlíusdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja segir fjármálastofnanir vel í stakk búnar til að takast á við vandann í efnahagslífinu.

„Fjármálafyrirtækin búa yfir miklum styrk og geta þar með lagt heilmikið til til þess að minnka varanlegan skaða af þessum heimsfaraldri og það er það sem þau eru að leggja sig fram um. Við finnum það hér hjá SFF að það er mikill vilji til þess og fjölmörg úrræði sem eru tekin upp úr skúffunum til að vinna með heimilum og fyrirtækjum í landinu. Þá er verið að bíða eftir að reglugerð komi frá stjórnvöldum varðandi stuðningslán til fyrirtækja. Ég held að hún sé að verða tilbúin. Við eigum von á að þau lán geti farið hratt af stað,“ segir Katrín.

  


Tengdar fréttir

Íslandsbanki lækkar vexti

Fastir vextir óverðtryggðra húsnæðislána hjá Íslandsbanka lækka um 0,75 prósentustig og breytilegra um 0,5 prósentustig.

Bankarnir enn undir vaxtafeldi

Nú þegar vikan er liðin frá hressilegri stýrivaxtalækkun liggja stóru bankarnir þrír enn undir feldi og íhuga viðbrögð sín.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×