Körfubolti

Friðrik Ingi snýr aftur til Njarðvíkur

Sindri Sverrisson skrifar
Þjálfarar karlaliðs Njarðvíkur, þeir Halldór Karlsson, Einar Árni Jóhannsson og Friðrik Ingi Rúnarsson, ásamt Brenton Birmingham varaformanni og Kristínu Örlygsdóttur formanni.
Þjálfarar karlaliðs Njarðvíkur, þeir Halldór Karlsson, Einar Árni Jóhannsson og Friðrik Ingi Rúnarsson, ásamt Brenton Birmingham varaformanni og Kristínu Örlygsdóttur formanni. MYND/JÓN BJÖRN

Friðrik Ingi Rúnarsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í Njarðvík og bætist því í hópinn með Halldóri Karlssyni en báðir munu þeir aðstoða Einar Árna Jóhannsson með Njarðvíkurliðið á komandi tímabili.

Friðrik Ingi var síðast þjálfari Þórs í Þorlákshöfn en hætti þar eftir síðasta tímabil, eftir eitt ár í starfi.

Í fréttatilkynningu Njarðvíkinga er bent á að Einar Árni og Friðrik Ingi séu nú sameinaðir á ný því Einar Árni hafi stigið sín fyrstu skref sem þjálfari í efstu deild þegar hann var aðstoðarþjálfari Friðriks Inga hjá félaginu. Friðrik Ingi mun auk aðstoðarþjálfarastarfsins sjá um þjálfun drengja- og unglingaflokks hjá Njarðvík.

„Við erum ofboðslega spennt fyrir samstarfinu við Friðrik Inga og ekki síst fyrir því að iðkendur í elstu yngri flokkum okkar fái einnig að njóta handleiðslu hans,“ sagði Kristín Örlygsdóttir formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur í fréttatilkynningu.

„Mér líst afar vel á þetta verkefni og er ánægður að verða í eldlínunni með Njarðvík í Domino´s-deildinni á komandi tímabili. Þá er ég einnig spenntur fyrir því að vinna með drengja- og unglingaflokki til að efla þá á leið sinni yfir brúna úr elstu yngri flokkum félagsins og upp í meistaraflokk. Ég tel Njarðvík fært um að skapa góðan vettvang fyrir þessa ungu leikmenn til að taka framförum og verða betri,“ er haft eftir Friðriki Inga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×