Formúla 1

Heimsmeistarinn hneykslaður yfir því að ástralski kappaksturinn fari fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lewis Hamilton á blaðamannafundinum í Melbourne í morgun en þar fer ástralski kappaksturrinn í formúlu eitt fram um helgina.
Lewis Hamilton á blaðamannafundinum í Melbourne í morgun en þar fer ástralski kappaksturrinn í formúlu eitt fram um helgina. Getty/Clive Mason

Lewis Hamilton segir það koma sér mikið á óvart að formúla eitt hafi ekki frestað ástralska kappakstrinum sem á að fara fram um helgina.

Kórónuveiran er að hafa mikil áhrif á flest alla íþróttaviðburði í heiminum og nú síðast frestaði NBA-deildin öllu tímabilinu sínu. Formúla eitt ætlar samt að setja tímabilið sitt af stað um komandi helgi.

Lewis Hamilton er einn af þeim sem er hneykslaður á þeirri ákvörðun að keppa um helgina þegar heimsfaraldur eins og kórónuveiran ógnar öllum á jörðinni. Lewis Hamilton er sexfaldur heimsmeistari og getur unnið sinn fjórða heimsmeistaratitil í röð á komandi tímabili.

„Ég er mjög, mjög hissa á því að við séum hérna núna,“ sagði Lewis Hamilton á blaðamannafundi sínum fyrir keppnina.

„Það er frábært að við séum að keppa í kappakstri en það er sjokkerandi að við séum í þessu herbergi,“ sagði Hamilton.

Fimm starfsmenn í formúlu eitt hafa verið settir í sóttkví vegna þess að menn óttast það að þeir séu með kórónuveiruna.

„Það eru svo margir áhorfendur hér og það lítur út fyrir að restin af heiminum sé að bregðast við þessu þó að það sé aðeins of seint. Við erum samt að sjá Trump loka landamærunum og NBA deildin hefur frestað öllum leikjum en samt heldur formúlan áfram,“ sagði Hamilton.

„Þetta er stór ákvörðun en ég heyrði að niðurstaðan úr sýnatökunni komi ekki fyrr en eftir fimm daga,“ sagði Hamilton sem var síðan spurður út í það af hverju hann héldu að formúlu helgarinnar hafi ekki verið frestað.

„Peningarnir eru kóngurinn,“ svaraði Lewis Hamilton og bætti við: „Ég hvet bara alla að fara eins varlega og þau geta. Ég vona að allir séu með sótthreinsandi vökva með sér.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.