Viðskipti innlent

Hluthafafundur Icelandair hafinn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sést hér fremst á myndinni skömmu áður en fundurinn hófst í dag.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sést hér fremst á myndinni skömmu áður en fundurinn hófst í dag. Vísir/Vilhelm

Hluthafafundur Icelandair hófst á Hilton Nordica-hótelinu núna upp úr klukkan 16. Á fundinum, sem Ólafur Arinbjörn Sigurðsson, lögmaður og einn eigenda Logos stýrir, fer stjórn Icelandair fram á að hluthafar veiti leyfi til að auka hlutafé í félaginu og halda hlutafjárútboð.

Komið hefur fram að félagið þurfi að safna allt að 29 milljörðum í útboðinu. Tillaga stjórnar um að auka hlutafé félagsins er það eina sem er á dagskrá fundarins.

Samkvæmt blaðamanni Vísis sem er á fundinum er töluverður fjöldi mættur en fundarmönnum var skipt í tvær raðir fyrir utan fundarsalinn og hleypt inn á tveimur stöðum. Fundarmenn séu bjartsýnir fyrir því að það verði samþykkt að fara í hlutafjárútboð.

Hluthafafundurinn er haldinn í skugga harðrar kjaradeilu félagsins við Flugfreyjufélag Íslands. Kjaraviðræðurnar eru í algjörum hnút eftir að félagið hafnaði í vikunni því sem Icelandair segir að sé „lokatilboð“ fyrirtækisins í deilunni.

Flugfreyjur- og þjónar hafa fundað í dag um stöðuna í deilunni og hafa þeir fundir einnig farið fram á Hilton Nordica.

Enginn fundur hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilunni en komið hefur fram að flugfreyjur séu ósáttar við kröfur um aukið vinnuframlag og að launahækkanir væru ekki sambærilegar þeim sem verið hafa á almennum vinnumarkaði.

Þá sakaði Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður FFÍ, Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, um að brjóta lög um stéttarfélög og vinnudeilur eftir að hann sendi starfsfólk bréf um stöðu málsins og útlistaði lokatilboð fyrirtækisins til flugfreyja.

Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Icelandair, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag flugfreyjur- og þjónar fyrirtækisins hafi verið að fljúga 14 prósent færri flugtíma en hjá sambærilegum félögum í Evrópu. Í lokatilboði Icelandair hafi falist bestu mögulegu kjör.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Engar hækkanir skráðar í dag

Mesta lækkun dagsins


Engar lækkanir skráðar í dag
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.