Skoðun

Icelandair missti af lestinni fyrir 18 árum

Ólafur Hauksson skrifar

Árið 2002 fékk Icelandair gullið tækifæri til að lækka rekstrarkostnað og búa sig undir vaxandi samkeppni. Þetta ár kom Iceland Express til skjalanna. Með mun lægri kostnaði og sveigjanleika í rekstri gat Iceland Express boðið lægri fargjöld en Icelandair nokkru sinni. Þessi nýja samkeppni var í raun kærkomin ástæða fyrir stjórnendur Icelandair til að taka fram hlaupaskóna og hrista af sér spikið til að takast á við nýja tíma.

En í stað þess að grípa þetta tækifæri til að læra að starfa í samkeppnisumhverfi, þá lögðust stjórnendur Icelandair í kostnaðarsamasta undirboð Íslandssögunnar til þess að drepa af sér nýja keppinautinn. Frá hausti 2002 til haustsins 2004 tapaði Icelandair 25 milljörðum króna í farþegatekjum vegna fargjalda sem voru langt undir raunkostnaði. Þau voru lægri en hjá lágfargjaldafélaginu.

Þessi dýra drápsferð bar þann árangur að Icelandair gat bolað stofnendum Iceland Express frá félaginu til að losna við samkeppnina. Fyrrverandi stjórnarmaður og hluthafi í Icelandair keypti Iceland Express fyrir fáeinar krónur. Ekki leið á löngu þar til bæði flugfélögin voru búin að stilla saman strengi í Öskjuhlíðinni og hætt með lágu fargjöldin.

Átján árum síðar er Icelandair að niðurlotum komið. Félagið á sér enga framtíð nema verða samkeppnisfært í kostnaði. Það væri ekki aðalvandinn núna ef tækifærið sem bauðst árið 2002 til að venjast samkeppni hefði verið nýtt. Síðari tíma tækifæri voru heldur ekki nýtt nema þá að litlu leyti. Icelandair situr uppi með að kostnaður á hvert flogið sæti grefur undan getu þess til að takast á við alvöru samkeppni. Á árinu 2018 var þessi kostnaður 30-40% hærri en hjá WOW og 300% hærri en hjá Wizz. Auðvitað eru þessi flugfélög ekki að öllu leyti sambærileg eða flugleiðir þær sömu, en munurinn er sláandi.

Fyrir 18 árum var Icelandair óhemju óheppið með stjórnendur. Hræddir karlar sem sáu ekki útfyrir skrifborðshornið og töldu Íslendingum hollast að Icelandair héldi áfram að okra á þeim um aldur og ævi. Þeir sögðust fagna samkeppninni, en óttuðust ekkert meira. Þeir eyðilögðu tækifærið til að gera Icelandair samkeppnishæft til framtíðar og sólunduðu ævintýralega háum fjárhæðum til þess.

Rétt er að taka fram að þessir mislukkuðu stjórnendur eru fyrir nokkuð löngu farnir frá Icelandair.

Höfundur er almannatengill og var einn af stofnendum Iceland Express.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.