Viðskipti erlent

Í verðstríði Sáda og Rússa, tapa Bandaríkin

Samúel Karl Ólason skrifar
Olíuframleiðsla í Bandaríkjunum er kostnaðarsamari en víðast hvar annarsstaðar.
Olíuframleiðsla í Bandaríkjunum er kostnaðarsamari en víðast hvar annarsstaðar. Vísir/Getty

Bæði yfirvöld Rússlands og Sádi-Arabíu segjast tilbúin í langvarandi átök um olíuverð. Sádar ætla í senn að auka framleiðslu til muna og auka framleiðslugetu í fyrsta sinn í mörg ár. Rússar hafa sömuleiðis heitið því auka framleiðslu til muna og olíuverð hefur hrunið.

Frá því að Rússar neituðu í síðustu að starfa með Samtökum olíuútflutningslanda, eða OPEC, sem Sádar svo gott sem stýra, eins og þeir hafa lengi gert og draga úr framleiðslu vegna samdráttar í eftirspurn sem rakin er til nýju kórónuveirunnar Covid-19, lýstu Sádar því yfir að þeir myndu auka framleiðslu og lækka verð.

Markmiðið er að refsa Rússum en gjaldmiðill Rússlands hefur þegar lækkað í verðmæti og Rússar reiða sig á sölu olíu.

Útlit er þó fyrir að það verði Bandaríkin sem tapi þessu stríði Rússlands og Sádi-Arabíu og til lengri tíma vinni bæði Rússar og Sádar.

Valdamiklir Rússar hafa lengi mótmælt samstarfi Pútín og Mohammed bin Salmann, krónprins Sádi-Arabíu. Þeir hafa lengi sammælst um að halda framleiðslu niðri og verði uppi. Igor I. Sechin, forsvarsmaður stærsta olíufyrirtækis Rússlands, og bandamaður Vladimir Pútín, forseta, hefur um árabil mótmælt samstarfinu við Sádi-Arabíu.

Fari verðstríðið á þann veg að framleiðsla hrynji í Bandaríkjunum eru þó líkur á því að til lengri tíma muni það leiða til hækkunar olíuverðs.

AP/Richard Drew

Bergbrot og leirsteinsvinnsla breytti Bandaríkjunum á einum áratug úr innflytjanda olíu í stærsta olíuframleiðanda heims.

Mun dýrari framleiðsla

Óhefðbundin olíu- og gasframleiðsla í Bandaríkjunum, eins og bergbrot og vinnsla leirsteinsgass og olíu, er kostnaðarsamari en sú hefðbundna, þar sem olíu og gasi er dælt upp úr borholum. Þar að auki eru bandarísk olíufyrirtæki tiltölulega skuldsett og ekki vel í stakk búin til að takast á við tekjulækkun og þá sérstaklega ekki til langs tíma.

Lækki olíuverð of mikið gæti framleiðsla í Bandaríkjunum hætt að borga sig. Þar sem tunnan þar, kostar mun meira en í Rússlandi og Sádi-Arabíu.

Það eru þó ekki allir sem eru sammála um að verðstríð sé Rússum í hag. Sergei Guriev, sérfræðingur sem New York Times ræddi við segir að bandarísk olíuframleiðsla muni aldrei „deyja“. Hún muni bara leggjast í dvala þar til olíuverð nái aftur sömu hæðum og framleiðslan borgar sig á ný.

Guriev segir Sechin og bandamenn hans virðast tilbúna að skjóta sjálfa sig í fótinn, svo lengi sem þeir geti einnig skotið Bandaríkjamenn.

Vilja aðstoða geirann

Fregnir hafa borist af því að Hvíta húsið vilji koma orkufyrirtækjum Bandaríkjanna til aðstoðar en forsvarsmenn geirans hafa kallað eftir opinberri aðstoð.

Olíufyrirtækið Occidental Petroleum lækkaði arðgreiðslur úr 79 sentum á hluta í ellefu og skar útgjöld niður um þriðjung. Þá tapaði fyrirtækið Continental Resources helmingi virði síns á hlutabréfamörkuðum. Eigandi þess, Harold Hamm, er mikill stuðningsmaður Donald Trump, forseta, og ráðgjafi hans.

Hann sagði í viðtali í gær að ríkisstjórn Trump þyrfti að íhuga aðgerðir til að verja olíuframleiðslu í Bandaríkjunum.

Demókratar segjast þó margir andsnúnir slíkum aðgerðum og vilja frekar tryggja verkafólki launað veikindaleyfi í sóttkví.


Tengdar fréttir

Sádar boða enn meiri olíuframleiðslu í verðstríði við Rússa

Útlit er fyrir enn frekari lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu eftir að Sádar tilkynntu að þeir ætluðu að framleiða metmagn af olíu í apríl. Þeir standa nú í verðstríði við Rússa sem vildu ekki samþykkja samdrátt í framleiðslu sem Sádar og OPEC vilja til að bregðast við áhrifum kórónuveirunnar.

Markaðir vestanhafs braggast eftir mikla lækkun

Lækkanir gærdagsins sem raktar voru til áhyggna af kórónuveirunni gengu til baka að hluta við opnun markaða í dag. Bandaríkjastjórn ætlar að kynna mótvægisaðgerðir vegna efnahagslegra áhrifa faraldursins í dag.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×