Körfubolti

Kórónuveiran sá til þess að Maciej framlengdi við Njarðvík

Anton Ingi Leifsson skrifar
Maciej Baginski verður áfram í heimahögunum.
Maciej Baginski verður áfram í heimahögunum. vísir/s2s

Maciej Baginski hefur framlengt samning sinn við körfuknattleiksdeild Njarðvíkur en kórónuveiran er ein aðalástæðan fyrir því að Maciej mun spila áfram körfubolta hér á næstu leiktíð því hann var á leið í skiptinám sem ekkert verður úr vegna kórónuveirunnar.

Maciej er uppalinn í Njarðvík og hefur leikið þar allan sinn feril eftir stutta viðkomu í Þorlákshöfn þar sem hann spilaði með heimamönnum. Hann hefur nú, eins og áður sagt, framlengt samning sinn við þá grænklæddu en það var ekki eina sem kom til greina.

„Annað hvort hefði ég tekið mér pásu eða vera bara í Njarðvík áfram og útaf ástandinu fór þessi pása út bakdyramegin. Ég átti að fara í starfsnám til Sviss en það er ekki hægt útaf ástandinu svo Njarðvík var eina í stöðunni,“ sagði Maciej í samtali við Kjartan Atla Kjartansson í Sportinu í dag.

„Manni langaði ekkert að hætta í körfubolta en það var tækifæri þarna. Ég er að klára viðskiptafræði og átti að fara vinna í banka í Sviss. Ég hefði tekið því ef ástandið hefði ekki skollið á.“

Njarðvík hefur framlengt við nokkra af sínum lykilmönnum og Maciej horfir björtum augum á næstu leiktíð.

„Ég held að við séum bara að reyna að halda í svipaðan kjarna og félagið er ekki að fara fram úr sér. Það er mjög mikil óvissa í öllum styrktaraðilum og svona. Við reynum að gera okkar besta til að halda í það sem var í fyrra og bæta svo aðeins við.“

Klippa: Sportið í dag - Maciej Baginski

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.