Viðskipti innlent

Segir aðal­vanda ál­versins í Straums­vík liggja í of háu raf­orku­verði

Heimir Már Pétursson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Rannveig Rist er forstjóri ISAL - álversins í Straumsvík.
Rannveig Rist er forstjóri ISAL - álversins í Straumsvík. vísir/egill

Rannveig Rist, forstjóri ISAL – álversins í Straumsvík, segir viðræður Rio Tinto, eiganda álversins, um nýjan raforkusamning við Landsvirkjun nýhafnar. Það sé því of snemmt að segja til um árangurinn af þeim viðræðum.

Viðræðurnar séu trúnaðarmál en Rannveig segir aðalvanda álversins liggja í raforkuverðinu sem sé óhagstæðara en hjá öðrum álverum hér á landi.

Rio Tinto tilkynnti í morgun að fyrirtækið ætli að hefja sérstaka endurskoðun á starfsemi ISAL svo meta megi rekstrarhæfi þess til framtíðar. Í endurskoðuninni eru allar leiðir undir, þar með talið framleiðsluminnkun sem og möguleg lokun álversins. 

„Við teljum að okkar samningur sé talsvert mikið óhagstæðari en við aðra í landinu og hann er líka talsvert meira óhagstæðari heldur en raforkusamningar sem við þekkjum í öðrum álverum. Það sem greinir ISAL frá öðrum álverum í heiminum er þessi raforkusamningur,“ segir Rannveig spurð út í raforkuverðið og raforkusamning Rio Tinto við Landsvirkjun vegna ISAL.

Hún segir mikið búið að spara í rekstri ISAL en taprekstur hafi verið viðvarandi frá árinu 2012. Engu að síður sé til að mynda búið að ná miklum rekstrarlegum árangri þannig að álverið sé til að mynda í hæsta gæðaflokki hjá öllum viðskiptavinum. 

„Við erum að framleiða vöru sem er á færi fárra álvera í heiminum þannig að við erum búin að gera  allt sem hægt er að gera hér innanhúss. Það er kannski alltaf hægt að gera eitthvað aðeins meira en við erum búin að gera gríðarlega mikið í gegnum mörg ár. En þarna er aðalvandinn og aðalmunurinn á okkur og öðrum álverum, það liggur í þessu raforkuverði og nú þarf að fara að ræða það, fílinn í herberginu,“ segir Rannveig.



Hvað er þessi munur mikill á heimsmarkaðnum þegar þið horfið á hina stóru mynd?


„Ja, nú er vandinn sá að ég má ekki segja verðið sem við erum að greiða, því miður, það væri mjög gott ef við gætum talað um þetta opinskátt og þetta væri uppi á borðum en þannig er það ekki. Í samningnum er þetta trúnaðarmál en við erum að greiða miklu meira en aðrir.“

Spurð út í það hvort hún telji það líklegt að álverinu verði lokað segir Rannveig:

„Ég get ekkert spáð í þau spil en það er allavega nýtt fyrir okkur. Það er búið að fara áður í gegnum endurskoðun og þá var meiningin að selja fyrirtækið og við erum búin að fara í tvo svoleiðis hringi. Næstum því selt til Hydro og það gekk til baka á síðustu stundu. Síðan er búið að reyna að selja aftur. Núna er það ekki í skoðun heldur í skoðun að fara þá leið að gera verksmiðjuna arðbærari hér eða loka henni alveg eða að hluta.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×