Handbolti

Hræktu og köstuðu klinki í Bjarna Frosta sem svaraði með stórleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Áhorfendur Sporting Lissabon létu Bjarna Frostason, markvörð Hauka, finna fyrir því.
Áhorfendur Sporting Lissabon létu Bjarna Frostason, markvörð Hauka, finna fyrir því. vísir/stöð 2 sport

Vignir Svavarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson voru gestir Henrys Birgis Gunnarssonar í Seinni bylgjunni í gær þar sem þeir fóru yfir upphafið að gullöld Hauka.

Þeir rifjuðu m.a. upp frægan leik Hauka við Sporting í Lissabon í EHF-bikarnum tímabilið 2000-01. Þar fór markvörðurinn og flugmaðurinn Bjarni Frostason á kostum.

„Bjarni Frosta átti einn rosalegasta leik sem ég hef séð. Ég held hann hafi varið 32 bolta. Í fyrri hálfleik voru þeirra áhorfendur fyrir aftan hann. Þeir hræktu á skallann á honum og köstuðu klinki í hann,“ sagði Vignir.

„Hann „tjúnaðist“ upp úr öllu valdi við það og lokaði gjörsamlega rammanum,“ bætti Vignir við.

Haukar og Sporting gerðu 21-21 jafntefli í fyrri leiknum í Lissabon en Haukar unnu svo seinni leikinn á Ásvöllum, 33-32. Einar Örn Jónsson, núverandi íþróttafréttamaður, skoraði sigurmark Hauka á lokaandartökum leiksins.

Haukar féllu svo út fyrir sterku liði Metkovic frá Króatíu í undanúrslitunum, 51-45 samanlagt. Ef Haukar hefðu unnið hefðu þeir mætt Alfreð Gíslasyni, Ólafi Stefánssyni og félögum í Magdeburg í úrslitaeinvíginu.

Klippa: Seinni bylgjan - Leikurinn í Lissabon

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×