Körfubolti

Lárus nýtti sér upp uppsagnarákvæði og er hættur með Þór

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lárus Jónsson á hliðarlínunni fyrr í vetur.
Lárus Jónsson á hliðarlínunni fyrr í vetur. vísir/bára

Körfuboltaþjálfarinn Lárus Jónsson er hættur með Þór Akureyri sem leikur í Dominos-deild karla en þetta var tilkynnt á vef félagsins seint í gærkvöldi.

Lárus tók við liðinu sumarið 2018 og kom því upp úr 1. deild karla. Í vetur tapaði liðið svo fyrstu átta leikjunum í Dominos-deild karla og það leit út fyrir þungan vetur en liðið náði að snúa taflinu við.

Þeir komust á sigurbraut og voru komnir með tólf stig er deildin var blásin af vegna kórónuveirunnar. Þeir voru í 11. sæti deildarinnar og héldu sæti sínu eftir að KKÍ sendi bara eitt liður.

„Við í stjórninni höfum hafið leit að eftirmanni Lárusar. En vissulega hefðum við vilja halda Lárusi lengur hér á Akureyri. Við óskum Lalla alls hins besta og þökkum honum samstarfið,“ sagði Hjálmar Pálmsson, formaður körfuknattleiksdeildar Þórs við heimasíðu félagsins.

Lárus segir að aðalástæðan fyrir uppsögninni sé að komast nær fjölskyldu sinni en hann er stoltur af tíma sínum fyrir norðan.

„Ástæðan fyrir því að við færum okkur suður á bóginn er til þess að vera nær fjölskyldunni. Við höfum átt frábæran tíma á Akureyri þar sem allir í samfélaginu hafa tekið okkur með opnum örmum og þess vegna var þessi ákvörðun mjög erfið. Mig langar að þakka þeim sem hafa stutt við bakið á liðinu og sérstaklega þeim sem unnu þrekvirki síðasta sumar til þess að hægt væri að tefla fram samkeppnishæfu liði í úrvalsdeild.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×