Handbolti

Fékk fyrirspurnir frá Danmörku og Íslandi en verður áfram hjá dönsku meisturunum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnór Atlason reif upp Skype og ræddi við strákana í Sportinu í dag.
Arnór Atlason reif upp Skype og ræddi við strákana í Sportinu í dag.

Arnóri Atlasyni líður vel sem aðstoðarþjálfari Álaborgar í Danmörku og hugsar sér ekki til hreyfings. Hann fékk þó fyrirspurnir frá öðrum félögum í Danmörku sem og frá Íslandi.

Álaborg varð krýndur danskur deildarmeistari á dögunum eftir að tímabilið var blásið af en liðið vann tvöfalt á síðasta ári. Gamla miðjumanninum líður vel hjá félaginu og kann vel við sig í þessu hlutverki.

„Mér líkar þetta ótrúlega vel. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og er í rosa góðu sambandi við aðalþjálfarann. Við vinnum ótrúlega vel saman og mér finnst þetta þrælskemmtilegt og ætla að sjá hvert þetta leiðir,“ sagði Arnór en hann hefur verið eftirsóttur.

„Það hafa komið fyrirspurnir hér í Danmörku og á Íslandi. Ég hugleiddi það mjög vel en var líka sannfærður um að mér líður mjög vel í mínu starfi hérna í Álaborg. Ég fæ mínum störfum fullnægt; fæ að taka mikið þátt í þessu og mjög ánægður með mitt starf þannig séð. Það eru ótrúlega spennandi tímar, til að mynda í Meistaradeildinni, og verðum aftur í henni á næsta ári. Þetta er flottur klúbbur og mér líður ótrúlega vel.“

Hann segir að hann verði hjá Álaborg í það minnsta eitt tímabil í viðbót.

„Ég verð hérna út næsta tímabil. Ég er með samning eitt ár í viðbót og maður skoðar það sem kemur á þeim tímapunkti og tekur ákvörðun út frá því.“

Hann segir ekki útilokað að fjölskyldan flytjist búferlum heim til Íslands þegar fram líða stundir.

„Ég veit það ekki. Það getur vel verið. Við eigum þrjú börn og auðvitað langar mann að gefa þeim tækifæri að alast upp á Íslandi og það var planið að koma heim en elsti strákurinn er kominn í áttunda bekk og við erum ekki enn kominn. Við ætlum ekki að ákveða eitt né neitt og það kemur bara í ljós.“

Klippa: Sportið í dag - Arnór verður áfam í Danmörku

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×