Viðskipti innlent

Olnboguðu verksamninga eftir að öllum tilboðum var hafnað

Kristján Már Unnarsson skrifar
Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, og Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður hjá Vegagerðinni, olnboga samningana að lokinni undirskrift í dag.
Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, og Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður hjá Vegagerðinni, olnboga samningana að lokinni undirskrift í dag. Vegagerðin/G. Pétur Matthíasson.

Vegagerðin og Ístak undirrituðu í dag tvo verksamninga um smíði tveggja nýrra brúa á hringveginum á Suðausturlandi, yfir Kvíá í Öræfum og Brunná í Fljótshverfi, upp á samtals 590 milljónir króna. Þetta er liður í fækkun einbreiðra brúa á þjóðvegakerfinu og eiga báðar að vera tilbúnar fyrir 1. nóvember í haust.

Athygli vakti að samningar voru ekki handsalaðir að lokinni undirskrift, heldur „olnbogaðir“ vegna kórónufaraldursins. Þeir Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, og Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður hjá Vegagerðinni, rétt létu olnbogana snertast í stað þess að takast í hendur, eins og venjan hefur verið við athafnir sem þessar.

Með þessari undirskrift er Ístak komið með samninga um smíði fjögurra brúa á Suðausturlandi fyrir samtals 1.360 milljónir króna.Vegagerðin/G. Pétur Matthíasson.

Þá var handspritt haft til taks á undirskriftarborðinu og aðrir viðstaddir dreifðu sér um fundarsal Vegagerðarinnar og höfðu langt bil á milli sín.

Verkin voru bæði boðin út í haust og tilboð opnuð í nóvember. Hér má sjá tilboðin í Kvíá og hér má sjá tilboðin í Brunná.

Vegagerðin taldi þau of há og hafnaði þeim öllum, að sögn Óskars. Þess í stað hóf Vegagerðin samningaviðræður við tvo lægstbjóðendur og varð niðurstaðan sú að semja við Ístak.

Frá undirritun í fundarsal Vegagerðarinnar í Borgartúni í dag.Vegagerðin/G. Pétur Matthíasson.

Verksamningurinn um Kvíá hljóðar upp á 430 milljónir króna en þar á jafnframt að leggja tengiveg að áningarstað og leiðigarð að brú, ásamt því að rífa núverandi brú. Samningurinn um Brunná hljóðar upp á 160 milljónir króna.

Áður hafði Vegagerðin samið við Ístak um smíði tveggja annarra brúa í Suðursveit, yfir Steinavötn og Fellsá, en þar var Ístak lægstbjóðandi, bauð 770 milljónir króna. Þar eru verklok áætluð í mars 2021. Ístak er þannig komið með samninga um smíði fjögurra brúa á Suðausturlandi fyrir samtals 1.360 milljónir króna.

Sjá einnig hér: Vegagerðin samdi við Ístak um brýrnar í Suðursveit

Það blés raunar ekki byrlega síðastliðið sumar hjá Vegagerðinni þegar hún bauð út brúasmíðina yfir Steinavötn og Fellsá, stærsta brúarverkefni ársins, en þá barst ekkert tilboð, eins og greint var frá í þessari frétt:


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×