Viðskipti innlent

Samherji endurgreiðir ríkinu hlutabætur

Kjartan Kjartansson skrifar
Starfsmenn í vinnslu á Akureyri og Dalvík voru tímabundið í hálfu starfi vegna sóttvarnaráðstafana í faraldrinum. Samherji ætlar að endurgreiða ríkinu hlutabætur sem þeir fengu þar sem reksturinn gekk betur en útlit var fyrir.
Starfsmenn í vinnslu á Akureyri og Dalvík voru tímabundið í hálfu starfi vegna sóttvarnaráðstafana í faraldrinum. Samherji ætlar að endurgreiða ríkinu hlutabætur sem þeir fengu þar sem reksturinn gekk betur en útlit var fyrir. Vísir/Egill

Stjórnendur Samherja Íslands og Útgerðarfélag Akureyringa hafa ákveðið að endurgreiða ríkinu hlutabætur sem það greiddi starfsmönnum. Félög Samherja muni í staðinn sjálf bera allan kostnað af skertu starfshlutfalli starfsmanna sinna.

Í tilkynningu frá Samherja sem á bæði félögin kemur fram að þegar hafi verið gripið til ráðstafana til þess að endurgreiða ríkissjóða hlutabæturnar sem starfsmönnum í skertu starfshlutfalli vegna kórónuveirufaraldursins voru greiddar.

Starfsmenn í vinnslu á Akureyri og Dalvík voru um tíma í 50% starfshlutfalli eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst og gripið var til sóttvarnaráðstafana til að hefta útbreiðslu hans. Stjórnendur Samherja töldu sjálfsagt að nýta hlutastarfaleið stjórnvalda þegar fyrirtæki voru hvött til að nýta sér hana frekar en að segja fólki upp störfum.

Að sama skapi hafi stjórnendur talið eðlilegt að bera sjálf kostnaðinn af röskun á starfseminni þegar ljóst var að reksturinn gekk betur en útlit var fyrir í upphafi faraldursins.

Ýmis fyrirtæki hafa undanfarið greint frá því að þau ætli að endurgreiða ríkissjóði hlutabætur sem starfsmönnum þeirra voru greidd. Sum þeirra höfðu sætt gagnrýni fyrir að greiða eigendum sínum arð eða kaupa upp eigin hlutabréf á sama tíma og þau nutu aðstoðar ríkisins í faraldrinum.

Þannig hafa fyrirtæki eins og Festi og Össur sagst ætla að endurgreiða hlutabæturnar.


Tengdar fréttir

Össur endurgreiðir Vinnumálastofnun

Össur hf. hefur tekið ákvörðun um að endurgreiða Vinnumálastofnun það fé sem runnið hefur til 165 starfsmanna félagsins á meðan þeir voru í hlutastarfi vegna COVID-19 faraldursins og hætta að nota úrræðið hér á landi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×