Handbolti

Félag Ágústs í alvarlegri krísu – Leikmenn höfnuðu launalækkun

Sindri Sverrisson skrifar
Markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson er á leið til félags sem á í miklum fjárhagserfiðleikum.
Markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson er á leið til félags sem á í miklum fjárhagserfiðleikum. Mynd/HSÍ

Handboltamarkvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson skrifaði í vetur undir samning til tveggja ára við danska félagið KIF Kolding sem nú á í miklum fjárhagserfiðleikum.

Í yfirlýsingu frá KIF Kolding í dag segir að stjórn félagsins segi af sér vegna þess að ekki hafi tekist að láta enda ná saman fyrir næstu leiktíð. Menn hafi einfaldlega gefist upp. Vandræði af völdum kórónuveirufaraldursins gera það meðal annars að verkum. Félagið reyndi meðal annars að semja við leikmenn um að lækka laun þeirra en án árangurs, samkvæmt yfirlýsingunni.

Tímabilinu í Danmörku var slitið þann 20. apríl án þess að tekist hefði að ljúka því. KIF Kolding hafnaði í 12. sæti. Félagið hefur unnið 14 Danmerkurmeistaratitla frá og með árinu 1987, ef taldir eru með titlarnir þegar liðið lék í samstarfi undir nafni AG Köbenhavn og KIF Kolding Köbenhavn, fleiri en nokkurt annað félag.

Ágúst fer til KIF Kolding í sumar eftir að hafa verið hjá Sävehof í Svíþjóð. Hafnfirðingurinn sér þannig til þess að áfram sé Íslendingur í liðinu en Ólafur Gústafsson og Árni Bragi Eyjólfsson kvöddu félagið í vor og eru gengnir í raðir KA.


Tengdar fréttir

Árni Bragi til KA

Mosfellingurinn Árni Bragi Eyjólfsson leikur með KA næstu tvö árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×