Dregið var í undanúrslitin fyrir Geysisbikar karla og kvenna í körfubolta í dag, og það verður boðið uppá stórleiki í Höllinni á bikarhelginni sem fram fer 12.-16. febrúar.
Það er sannkallaður stórleikur hjá stelpunum þegar bikarmeistarar Vals mæta KR í undanúrslitunum. Í hinum leiknum tekur Skallagrímur á móti Haukum. Guðbjörg Sverrisdóttir, fyrirliði Vals, segir hafa búist við því að fá KR í undanúrslitum.
Valur er besta lið landsins í dag en þær voru þó að bæta við sig erlendum leikmanni í von um að styrkja liðið enn frekar. Bandaríski framherjinn Micheline Mercelita leikur með liðinu út þetta tímabil.
En óvænt úrslit voru í karlaflokki í gær þegar Fjölnir sló Keflavík úr keppni, Falur Harðarson þjálfari Fjölnis, segir þetta hafa verið gríðarlega mikilvægan sigur fyrir liðið eftir erfitt gengi í vetur og hlakka til þess að mæta í Höllina þar sem þeir mæta Grindavík í undanúrslitum.
Að lokum þá eigast við Tindastóll og Þór Akureyri í kvöld í 8-liða úrslitum en leiknum var frestað vegna veðurs í gær, sigurvegari leiksins mætir svo bikarmeisturum Stjörnunnar í undanúrslitum. Arnþór Freyr Guðmundsson, leikmaður Stjörnunnar segir það ekki skipta máli hvoru liðinu þeir mæti, markmiðið er alltaf það sama í Garðabænum.
Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.