Innlent

UNICEF á Íslandi safnar fyrir börn í Sýrlandi

Þorgils Jónsson skrifar
Þessi unga stúlka er meðal þeirra tæplega milljón barna sem hafa flúið stríðsátök í Sýrlandi.
Þessi unga stúlka er meðal þeirra tæplega milljón barna sem hafa flúið stríðsátök í Sýrlandi. Mynd/UNICEF
Þau áheit sem UNICEF á Íslandi aflar í Reykjavíkurmaraþoninu um þar næstu helgi munu renna óskipt til neyðaraðgerða í Sýrlandi.

Neyð barna vegna borgarastyrjaldarinnar þar í landi eykst sífellt og nú eru tæplega milljón börn meðal þeirra sem flúið hafa land auk þeirra þriggja milljóna sem þjást innanlands í Sýrlandi vegna átakanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi, auk þess sem ítrekuð er þörfin á frekari aðstoð.

UNICEF  er meðal annars að störfum í Zaatari-flóttamannabúðunum í Jórdaníu, þar sem 120.000 flóttamenn dvelja, þar af er helmingurinn börn, en þetta eru næststærstu flóttamannabúðir í heimi og í raun næstfjölmennasta borg Jórdaníu sem stendur.

UNICEF útvegar allt vatn í þeim búðum og dreifir þar samtals fjórum milljónum lítra af hreinu vatni á dag. Auk þess hefur UNICEF dreift miklu magni hjálpargagna í Zaatari-flóttamannabúðunum og veitt börnum sálrænan stuðning  

„UNICEF er Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og við höfum þungar áhyggjur af framvindunni í Sýrlandi,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi í tilkynningu.

„Börn eru meirihluti þeirra sem eru á flótta – og flest þeirra eru mjög ung. Við ákváðum því að láta áheit hlaupara í ár renna til neyðaraðgerðanna. Margir hér heima hafa haft samband við okkur, eru áhyggjufullir og hafa spurt hvernig þeir geta styrkt hjálparstarfið í Sýrlandi. Almenningur getur því núna bæði hlaupið til styrktar börnum frá Sýrlandi og heitið á aðra sem gera það,“ segir Stefán.

„Það er vel hægt að hjálpa og við sjáum árangur af starfinu á hverjum einasta degi. Barnadauði í stærstu flóttamannabúðunum í Jórdaníu er sem dæmi miklu lægri en það sem við höfum séð þar sem neyðarástand af sömu stærðargráðu hefur ríkt. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hefur einnig tekist að koma í veg fyrir mæðradauða. Þetta eru góðar fréttir. Þegar fleiri flýja eykst þörfin fyrir aðstoð og við þurfum því að ná að auka viðbrögðin enn frekar.“

Margvíslegar ógnir steðja að börnum í flóttamannabúðum, fyrir utan bein áhrif af átökunum, þar sem þau eiga á hættu að verða fórnarlömb barnaþrælkunar og mansals.

Því hefur UNICEF lagt mikla áherslu á barnavernd.

Auk þess hafa samtökin útvegað tíu milljónum manna hreint vatn í Sýrlandi og nágrannaríkjunum, auk þess sem UNICEF og samstarfsaðilum hefur tekist að bólusetja nærri 2,5 milljónir barna gegn mislingum, lífshættulegum sjúkdómi. Þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður í borginni Homs hefur UNICEF dreift hjálpargögnum í borginni, þar á meðal á þeim svæðum þar sem ástandið er ótryggast, svo sem í Al Waer.

Yfir 50 hjúkrunarteymi hafa auk þess farið um með færanlegar heilsugæslustöðvar og komið sér fyrir á stöðum í Sýrlandi þar sem öryggi er lítið og fólk hrætt við að fara út úr hverfum sínum. Heilsugæslan er þannig færð í þeirra næsta nágrenni.

Það sem af er ári hafa teymin náð til yfir 180.000 barna.

Á heimasíðu UNICEF á Íslandi má nálgast upplýsingar um hvernig megi styrkja starfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×