Innlent

Kennarar undirbúa enn eitt verkfallið

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir ljóst að það stefni í mjög erfiða kjarabaráttu á næstu misserum. 
Fréttablaðið/Heiða
Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir ljóst að það stefni í mjög erfiða kjarabaráttu á næstu misserum. Fréttablaðið/Heiða
Félag framhaldsskólakennara er í fullum gangi með kjarabaráttu sína og undirbýr allsherjarverkfall í febrúar, náist ekki að semja fyrir þann tíma. Samningar við stéttina verða lausir í lok janúar, en kjarasamningum við ríkið var hafnað seinnihluta síðasta árs.

Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir að ljóst sé að það stefni í mjög erfiða kjarasamninga. „Það má vera staurblindur maður sem sér ekki þegar hann skoðar málin að það eru hörð átök fram undan,“ segir hún. Spurð hvort það stefni hraðbyri í verkfall framhaldsskólakennara, segist Aðalheiður ekki vera bjartsýn miðað við framvindu mála hingað til.

„Það er morgunljóst. Hver sá sem skoðar kjaramál og launaþróun í framhaldsskólum áttar sig á því að þarna er stórkostlegur vandi á ferðinni,“ segir hún. Það sé ekkert launungarmál að ef engar úrlausnir komi áður en kjarasamningar losni í lok janúar verði staðan vond. „Það er mjög ámælisvert að stjórnvöld ætli að sitja með hendur í skauti og ekkert að aðhafast til að afstýra vondum málum,“ segir hún.

Nokkrir kennarar sem Fréttablaðið ræddi við taka í sama streng og segja allt stefna í langt og strangt verkfall í febrúar.

Félag framhaldsskólakennara er eitt af sjö aðildarfélögum Kennarasambands Íslands með um 1.700 félagsmenn. Alls eru starfræktir 34 framhaldsskólar á landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×