Innlent

Alvarlegt mál segir landlæknir

Svavar Hávarðsson skrifar
Geir Gunnlaugsson
Geir Gunnlaugsson
Geir Gunnlaugsson landlæknir segir það grafalvarlegt mál að starfsmaður hafi verið ráðinn til starfa á krabbameinsdeild Landspítalans án tilskilinnar menntunar. Hann segir að málinu hafi verið vísað til embættisins til að veita upplýsingar um málavöxtu, en ábyrgð mála sem þessara hvíli alfarið hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun og í þessu tilfelli Landspítalanum.

Eins og greint hefur verið frá var íslensk kona, 28 ára að aldri, ráðin til starfa á krabbameinsdeild LSH þrátt fyrir að hún hefði aðeins tveggja ára hjúkrunarnám að baki. Hún starfaði á deildinni í tvö ár áður en upp komst að hún sigldi undir fölsku flaggi.

„Við höfum til skoðunar hvernig við getum komið að máli eins og þessu. Við höfum lagt sérstaka áherslu á það við starfsmenn heilbrigðisstofnana að þessir pappírar séu í lagi við ráðningu starfsfólks,“ segir Geir.

Geir getur ekki fullyrt að málið sem kom upp í síðasta mánuði sé einsdæmi, en að þetta sé nær óþekkt. Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir enn til skoðunar hvort málið verði kært til lögreglu. Eins er til umfjöllunar hvernig ráðningu starfsmannsins bar að og hvernig farið verður með mál þeirra sem ábyrgð bera á ráðningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×