Skoðun

Hér rætast draumarnir!

Jakob S. Jónsson skrifar
Mitt nafn er Jakob S. Jónsson og ég er leikstjóri og leiðsögumaður. Ég legg það ekki í vana minn að skrifa opin bréf til þingmanna og ríkisstjórnar. En nú bið ég þingmenn og ráðherra að gefa mér tvær mínútur, og lesa þetta bréf – og aðrar tvær til að hugleiða efni þess. Fjórar mínútur alls. Ok?

Að lokinni 2. umræðu Alþingis um fjárlög 2014 er ljóst að skorin hafa verið niður framlög til Kvikmyndasjóðs og Kvikmyndaskóla Íslands. Auðvitað ríkir skilningur á að niður þurfi að skera til að ná hallalausum fjárlögum. En það er óskynsamlegt að skera niður til þeirra málaflokka sem hér um ræðir.

Skal hér rætt og rökstutt eitt af mörgum sjónarhornum:

Öflugur Kvikmyndasjóður tryggir að framleiðsla kvikmynda á sér stað á Íslandi. Kvikmyndaskóli Íslands tryggir að til sé fólk með menntun og þekkingu til að framleiða kvikmyndir.

Af hverju er það mikilvægt? Jú – Ísland laðar að erlenda kvikmyndagerðarmenn, sem nýta landið sem leiksvið og íslenska kvikmyndagerðarmenn til starfa. Íslendingar endurgreiða erlendum kvikmyndaframleiðendum 20% af greiddum söluskatti þeirra hér, sem er hliðstætt endurgreiðslu af seldum vörum í Fríhöfninni í Leifsstöð.

Endurgreiðslan hvetur erlenda kvikmyndagerðarmenn til að koma til Íslands og tekjur af kvikmyndagerð þeirra hér lenda í ríkissjóði, okkur til gleði. En jafnan verður ekki jákvæð nema til komi annars vegar framlag okkar í Kvikmyndasjóð og hins vegar framlag til Kvikmyndaskólans. Hvort tveggja tryggir nefnilega að nauðsynleg þekking sé til staðar. Til að fá milljarðana, þurfum við að kosta til nokkrum milljónum.

Ég hef starfað sem leiðsögumaður í nokkur ár og hitt þúsundir ferðamanna. Þeir heillast af landi okkar, náttúru og sögu. Erlendar myndir – James Bond, Oblivion, Prometeus – eru eins og gps-hnit í huga þeirra og færa hið magnaða landslag Íslands nær þeim. Og þá nær Íslandi.

Allir glaðir

Ein væntanleg mynd mun þó hafa sérstöðu: The Secret Life of Walter Mitty. Ef marka má kynningarmyndbönd skapar myndin óvenju sterka tilfinningu fyrir landi og náttúru og talar til nýrrar kynslóðar bíógesta.

Kynningarmynd um The secret Life of Walter Mitty segir frá hjálparstarfi á Filippseyjum. Ótrúlegt, en satt. Mynd Bens Stillers fjallar um mann, sem lætur drauma sína rætast – og hjálparstarf á Filippseyjum snýst um sömu þrár og óskir.

Tengingin í huga kvikmyndaáhorfandans verður því „Walter Mitty – Ísland – hjálparstarf á Filippseyjum – draumar rætast!“ Þetta er snilldarleg tenging, sem við Íslendingar ættum að notfæra okkur. Ekki síst í ferðaþjónustunni!

Hvernig? Jú, dæmi: Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki gætu látið 100 krónur af hverjum seldum miða í Gullna hringinn renna til svipaðrar þróunaraðstoðar og kynningarband The secret Life of Walter Mitty sýnir. Og auglýsa það. Þar með festir Ísland í sessi ákveðna ímynd, sem tengist mannúð og þrá okkar manna til að láta drauma rætast. Það er til þess fallið að hvetja fólk út um allan heim til að heimsækja Ísland. Af hverju? Jú, hér rætast draumarnir!

En þá verða okkar ágætu alþingismenn að gera þrennt fyrir 3. umræðu um fjárlög:

tryggja óskert (helst aukið) fé til Kvikmyndasjóðs,

tryggja óskert (helst aukið) fé til Kvikmyndaskóla Íslands, og

tryggja (og helst auka) fé til þróunarhjálpar til móts við ferðaþjónustuna.

Þar með skapast forsendur fyrir aukningu ferðamanna á Íslandi, sem þýðir tekjuauka til kvikmyndagerðar, ferðaþjónustu og ríkissjóðs. Allir glaðir!



Getur það betra orðið?

Þeirri spurningu geta þingmenn svarað – í verki! Fyrir 3. umræðu og lokaafgreiðslu fjárlaga.




Skoðun

Sjá meira


×