Viðskipti innlent

Flýta lokagreiðslu vegna Icelandair Hotels og lækka hana um helming

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Samið var um kaupin þann 13. júlí síðastliðinn.
Samið var um kaupin þann 13. júlí síðastliðinn. vísir/vilhelm

Lokagreiðsla vegna sölu 75% hlutar í Icelandair Hotels og tengdum fasteignum til Berjaya Land Berhad verður greidd í dag, en ekki 31. maí eins og áður hafði verið tilkynnt. Lokagreiðslan lækkar nokkuð vegna kórónuveirufaraldursins að sögn Icelandair. Hún átti að nema rúmum 20 milljónum bandaríkjadala en vegna aðstæðna var fallist á að hún muni nema 10,3 milljónum dala. Það gerir um 1,5 milljarð króna.

Afhending á bréfum Icelandair Hotels fer svo fram í kjölfarið. Þá verður ný stjórn skipuð og þar mun Icelandair Group tilnefna einn stjórnarmann og Berjaya tvo. Heildarkaupverð 75% hlutar er um 6,5 milljarðar króna, eða 45,3 milljónir bandaríkjadala, miðað við núverandi gengi.

Icelandair Group og Berjaya höfðu áður komist að samkomulagi um að Berjaya greiddi lokagreiðsluna 31. maí 2020, þremur mánuðum seinna en upphaflega var áætlað. Þá var jafnframt gengið út frá því að heildarkaupverðið yrði um 55,3 milljónir Bandaríkjadala. Úr þessu má lesa að kórónuveiran hafi lækkað verðið á hótelunum um 10 milljónir dala.

Sjá einnig:  Kaupandi Icelandair Hot­els seinkar loka­greiðslu

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, að það sé ánægjulegt að ljúka sölunni á þessum tímapunkti. „Salan styður við stefnu okkar að leggja fyrst og fremst áherslu á kjarnastarfsemi Icelandair Group, flugrekstur, sem hefur aldrei verið mikilvægara en nú,“ segir Bogi.

„Þrátt fyrir þá óvissu sem nú ríkir í heiminum er ég sannfærður um að framtíðarhorfur íslenskrar ferðaþjónustu eru góðar. Kaup Berjaya endurspegla þá sýn og staðfesta gæði og virði hótelfélagsins sem verður helsti styrkur þess þegar kemur að því að grípa þau tækifæri sem gefast þegar fer að rofa til á ný.“

Berjaya Land Berhad er skráð félag í Malasíu og starfar meðal annars í hótelrekstri, smásölu og fasteignaþróun. Stofnandi og stjórnarformaður móðurfélagsins Berjaya Group er malasíski auðkýfingurinn Vincent Tan. Berjaya Land Berhad og tengd félög eru með um 4.700 starfsmenn og nema árlegar tekjur samstæðunnar 1.76 milljarði bandaríkjadala.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×