Viðskipti innlent

Kaupandi Icelandair Hot­els seinkar loka­greiðslu

Eiður Þór Árnason skrifar
Samið var um kaupin þann 13. júlí síðastliðinn.
Samið var um kaupin þann 13. júlí síðastliðinn. Vísir/vilhelm

Öll skilyrði sem samið var um vegna sölu 75% hlutar í Icelandair Hotels og tengdum fasteignum til malasíska félagsins Berjaya Land Berhad hafa nú verið uppfyllt. Þá hafa félögin komist að nýju samkomulagi um lokagreiðslu en hún mun koma þremur mánuðum seinna en áður áætlað var. Þetta kemur fram í kauphallartilkynningu frá Icelandair Group.

Í desember síðastliðnum tilkynnti Icelandair Group að gert væri ráð fyrir því að gengið yrði frá kaupunum í lok febrúar á þessu ári. Áður var stefnt að því að þau yrðu kláruð undir lok síðasta árs en samið var um kaupin þann 13. júlí síðastliðinn.

Heildarkaupverð hlutarins er sagt vera rúmir sjö milljarðar króna (55,3 milljónir Bandaríkjadala) á núverandi gengi. Berjaya hefur þegar greitt Icelandair Group 1,9 milljarða (15 milljónir Bandaríkjadala), er fram kemur í tilkynningunni.

Eftirstöðvar kaupverðsins nema því um 5,1 milljarði króna (40,3 milljónir Bandaríkjadala).

„Icelandair Group og Berjaya hafa nú komist að samkomulagi um að Berjaya greiði um helming eftirstöðvanna 28. febrúar nk., rúmlega 2,5 milljarða króna (20 milljónir Bandaríkjadala) og að lokagreiðslan, rúmir 2,6 milljarðar króna (20,3 milljónir Bandaríkjadala), verði greidd 31. maí 2020, þremur mánuðum seinna en upphaflega var áætlað. Þá hefur Berjaya samþykkt að greiða 6% ársvexti af eftirstöðvum kaupverðs þann 28. febrúar nk.“

Fram kemur í tilkynningunni að afhending á bréfum Icelandair Hotels fari fram samhliða lokagreiðslu í lok maí. Komi til þess að eftirstöðvarnar verði ekki greiddar er samkomulag um vanefndagreiðslu að fjárhæð rúmlega 2,5 milljarða króna (20 milljónir Bandaríkjadala) af hálfu kaupanda af því sem þegar hefur verið greitt og getur Icelandair Group þá rift kaupunum.

Berjaya Land Berhad er skráð félag í Malasíu og starfar meðal annars í hótelrekstri, smásölu og fasteignaþróun. Stofnandi og stjórnarformaður móðurfélagsins Berjaya Group er malasíski auðkýfingurinn Vincent Tan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×