Skoðun

Um­hverfis­ráð­herra ekki grænn, heldur rauður!

Ole Anton Bieltvedt skrifar

Í september 2019 ritaði Fagráð um velferð dýra - en yfirdýralæknir er formaður ráðsins - Umhverfisstofnun bréf, varðandi framtíð hreindýraveiða, og beindi þeim tilmælum til stofnunarinnar og þar með til umhverfisráðherra, „að kýr verði ekki skotnar frá kálfum yngri en þriggja mánaða“.

Fram til þessa hafði umhverfisráðherra leyft veiðar á hreindýrakúm frá 1. júlí, en þá eru yngstu kálfar rétt 8 vikna og standa ekki meira en svo í fæturna, eins og mörgum er kunnugt.

Flestum - alla vega öllum dýra- og náttúruvinum - ofbýður þetta, og hefði mátt ætla, að umhverfisráðherra væri í þeim hópi, enda nú varaformaður Vinstri grænna, sem auðvitað þykjast vera græn, þó að lítið hafi farið fyrir því, þrátt fyrir stjórnarsetu og -forustu nú í tvö og hálft ár.

Þann 19. febrúar sl. birtist svo á vefsíðu umhverfisráðuneytisins auglýsing um hreindýraveiðar árið 2020.

Þessi auglýsing sýnir, því miður, að veiðimenn hafa haft betri aðgang að umhverfisráðherra, en Fagráð um velferð dýra og yfirdýralæknir, eða þá, að samkennd ráðherra með þeim og þeirra veiðigleði er meiri, en samkennd hans með saklausum og varnarlausum dýrum, hverra velferð honum er þó skylt að bera fyrir brjósti.

Fram hefur komið, að umhverfisráðherra kann að meta jarðveginn og landið, sem í sjálfu sér er af hinu góða, svo langt sem það nær, en skilning virðist skorta hjá honum fyrir því, að landið og lífríkið á því mynda eina heild.

Augljóst er af þessari afgreiðslu hreindýraveiða 2020, þar sem veiðitímar eru óbreyttir, og hreindýrakýr verða áfram skotnar með og frá 8 vikna gömlum kálfum þeirra, að dýravernd og dýravelferð veldur umhverfis-ráðherra ekki vökunóttum.

Umhverfisráðherra fylgir veiðimönnum í einu og öllu í ákvörðun sinni um hreindýraveiðar 2020, nema, hvað hann reynir sýnilega, að réttlæta lítillega gjörðir sínar með því, að „hvetja veiðimenn eindregið“ til þess að veita kúm með kálfa grið í 2 vikur, með því að einbeita þá drápinu að geldum kúm.

Góðir og virkir stjórnunarhættir það, til manna, sem hafa engar tilfinningar fyrir dýrunum - kálfum eða kúm -, en, ef svo væri, lægju þeir ekki í því, að murka úr þeim lífið, að gamni sínu.

Í ágúst í fyrra birtist grein í Fréttablaðinu með fyrirsögninni „Rómantískt að veiða saman“. Gekk hún út á dráp hjóna úr Reykjavík á tveimur hreindýrum, sem þau felldu saman, sér til skemmtunar og gleði og greinilega til að auka rómantíkina í hjónabandinu.

Ætli svona veiðimenn, sem líka fara dýrum dómum alla leið til Afríku til þess að murka líftóruna úr saklausum villtum dýrum þar, sér til lífsfyllingar og gleðiauka, og aðrir, sem eru skyldir þeim í tilfinningalífi sínu og sama sinnis, geri mikið með „eindregna hvatningu“ umhverfisráðherra?

Það mætti líkja þessu við það, að ökumenn væru „eindregið hvattir“ til að aka á hóflegum hraða í þéttbýli, í stað þess að setja skýrar reglur um hraða þar, sem auðvitað er gert.

Því miður liggur það fyrir, eftir að umhverfisráðherra hefur gegnt starfi sínu í tvö og hálft ár, að hvergi er hægt að sjá merki þess, að hann hafir gert eitt eða neitt fyrir vernd eða velferð dýra í landinu. Á þó slíkt að vera á stefnuskrá VG, en það virðist grafið og gleymt ásamt með hvalavernd og ýmsu öðru, sem flokkurinn segist standa fyrir.

Eitt er það, að umhverfisráðherra hunzi afstöðu og tilmæli okkar Jarðarvina og annarra náttúruverndarsinna og virði vernd dýranna og baráttu okkar fyrir velferð þeirra að vettugi, annað og verra er, að hann skulir taka óheftan veiðvilja veiðimanna - líka innan Umhverfisstofnunar, en þar eru þeir enn með rík ítök, það sama gildir um Nátúrustofu Austurlands, sem er miðstöð fjárflæðis af drápi dýranna, í allar áttir austur þar, sem nemur hundruð milljóna á ári – fram yfir tilmæli Fagráðs um velferð dýra. Fyrir undirrituðum er þetta alvarlegt, illskiljanlegt og óviðunandi.

Það er öllum dýravinum mikil vonbrigði, hversu huglaus og dáðlaus umhverfisráðherra hefur reynzt í dýraverndarmálum, þrátt fyrir stórar skyldur og yfirlýsta dýraverndarstefnu VG. Hvernig skyldu kjósendum VG líka þetta? Skyldi formaðurinn vera stoltur? Það er illt, að bregðast öðrum, en kannske enn verra að bregðast sjálfum sér.

Höfundur er stofnandi og formaður Jarðarvina.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Fylgir þú lögum?

Ugla Stefaníu Kristjönudóttir Jónsdóttir,Þorbjörg Þorvaldsdóttir skrifar

Skoðun

Ótti

Gunnar Dan Wiium skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.