Viðskipti innlent

Landic Property tekur þátt í byggingu heilsu- og lækningamiðstöðvar

Oddur Steinarsson læknir.
Oddur Steinarsson læknir.

Samið hefur verið um að fasteignafélagið Landic Property taki þátt í byggingu heilsu- og lækningamiðstöðvar í Vetrarmýrinni í Garðabæ. Oddur Steinarsson læknir og einn forsvarsmanna verkefnisins og Páll Benediktsson, talsmaður Landic Property, staðfestu þetta við Vísi í dag. „Samningurinn felur í sér að þeir koma inn í félagið með okkur og leggja til alla sína sérþekkingu sem þarf til að byggja upp og reka þetta hús," segir Oddur.

Oddur segir að hugmyndin að baki verkefninu sé svipuð og sú sem hafi verið að baki byggingu Domus Medica fyrir 40 árum síðan. Þó telur Oddur að það verði ýmislegt í heilsumiðstöðinni sem ekki sé að finna í Domus. Svo sem sjúkraþjálfun, endurhæfing, heilsutengdar verslanir, hótel og fleira. „Við viljum sameina margskonar einingar úr heilbrigðisþjónustunni á einum stað," segir Oddur. Hann segir að verið sé að vinna að samningum við verktaka og bæjaryfirvöld í Garðabæ. „Svo verður farið í hönnunarvinnu og vonandi verða framkvæmdir eitthvað byrjaðar á þessu ári," segir Oddur.

Oddur segist ekkert vera smeykur þótt miklar væringar séu á fjármálamörkuðum þessa dagana. „Ja, það er niðursveifla í dag, en við teljum að hún muni ekki vara í mörg ár," segir Oddur og bætir við að bygging heilsumiðstöðvarinnar grundvallist á núverandi markaðsgreiningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×