Skoðun

Einangrunarótti og þjóðremba

Íslendingar minntust 90 ára afmælis fullveldisins við býsna dapurlegar aðstæður. Sjálfan fullveldisdaginn gekk ríkisstjórnin með betlistaf í hendi land úr landi eins og verið hafði vikum saman frá því að forsætisráðherra tilkynnti að „þjóðargjaldþrot" lægi við.

Ástæða þessa yfirvofandi þjóðargjaldþrots var augljós, þótt ekki megi nefna það á æðri stöðum. Valdastéttin í landinu, kaupsýslumenn, ráðherrar og embættismenn, sannaði á sig óráðsíu og vangæslu í athöfnum og stjórnsýslu. Þess var ekki gætt að reka þjóðarbúskapinn af gætni og hófsemi í samræmi við getu smáríkis. Þess í stað fylltust fjáraflamenn og stjórnmálamenn sérstöku oflæti um samkeppnisgetu sína og þjóðarinnar sem kalla mætti nýþjóðrembu. Þessi nýja þjóðremba fólst og felst í því að hámenntaðir fjármálasérfræðingar (eins og sagt er), margsigldir og lærðir utanlands helltu sér út í landvinninga erlendis að sýna í verki hversu upplagt það er að auðgast á pappírsviðskiptum ýmiss konar og gera þannig "þekkingarþjóðfélagið" að veruleika að sínu leyti.

Þá átti „hin gáfaða íslenska þjóð" að komast á nýtt stig siðmenningar og þyrfti ekki að slíta sér út í erfiðisverkum til sjós og lands eða heimskandi færibandavinnu og skítverkum yfirleitt. Þess háttar verk yrðu vitaskuld unnin af langt aðkomnu „hreyfanlegu vinnuafli", þangað til þá þrælauppsprettu þrýtur sem reyndar er fjarska langt undan, — guði sé lof!

Pólitíska hliðin á nýþjóðrembunni birtist glöggt í virðingarleysi evrópusinna á fullveldi og sjálfstæði. Í þeirra hug hefur fullveldishugtakið enga fasta merkingu. Fyrir þeim er það afstætt og „háð köldu hagsmunamati", þ. e. a. s. köldu fjárhagslegu mati. Þeir líta raunar á fullveldi sem framseljanlegan rétt og falbjóða það á markaði, að vísu gegn fébótum, en hirða ekkert um valdskerðinguna. Hana má vinna upp með gróða af fjármálastarfsemi.

Þrátt fyrir nýþjóðrembuna og oflætið markast tíðarandi samtímans eigi að síður af einangrunarótta í ætt við hornrekukennd tapþola („lúsera"). Einangrunaróttinn gagnsýrir alla forustu í landinu, hvort heldur er á sviði stjórnenda, launþegasamtaka og iðnrekenda eða forustu í menningarmálum. Listamenn, rithöfundar og fræðimenn eru ekki undanskildir.

Höfundur er fyrrverandi ráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×