Viðskipti erlent

Hugsanleg yfirtaka á Skandia

Skandia gæti orðið yfirtekið af Old Mutual, suður-afrísku tryggingarfélagi sem starfar meðal annars einnig í Bretlandi og Bandaríkjunum. Fjármálasérfræðingar álíta að Old Mutual sjái veruleg kauptækifæri í gegnum þann hluta Skandia sem starfar á breskum markaði. Stjórnir félaganna eiga í viðræðum um mögulegt yfirtökuboð Old Mutual sem gæti hljóðað að hámarki upp á 50 sænskar krónur í hlut. Gengi Skandia hækkaði um 20 prósent við tíðindin og fór upp í tæpar 42 sænskar krónur á hlut. Ekki er talið útilokað að aðrir fjárfestar vilji gera tilboð í Skandia. Þar hafa nöfn Burðaráss og KB banka, sem eru meðal tíu stærstu hluthafa í Skandia, dúkkað upp ásamt Cevian Capital. Burðarás á 1,4 prósent í Skandia og hefur að auki rétt til að kaupa tvö prósent til viðbótar. KB banki áætlar að gengishagnaður Burðaráss, á 2. ársfjórðungi, sé orðinn um 2,6 milljarðar króna með kaupréttinum. KB banki er 6. stærsti hluthafinn í Skandia með sinn 2,5 prósenta hlut og gæti gengishagnaður bankans verið um 1,9 milljarðar króna á ársfjórðungnum. Þessar tölur myndu svo hækka enn frekar ef tilboðið hljóðaði upp á 50 krónur á hvern hlut.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×