Innlent

Mikill uppgangur hjá Vísi á Þingeyri

Mikil bjartsýni ríkir á Þingeyri og atvinnuástand er þar gott. Vísir hf. hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu fiskvinnslu í þorpinu.
Mikil bjartsýni ríkir á Þingeyri og atvinnuástand er þar gott. Vísir hf. hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu fiskvinnslu í þorpinu. fréttablaðið/róbert

Uppbygging fiskvinnslu á Þingeyri hefur verið mikil að undanförnu. Starfsfólkið er bjartsýnt þrátt fyrir óvissu í sjávarútvegi. Framkvæmdastjóri segir umræðu stjórnmálamanna valda meiri áhyggjum en niðurskurður á þorskkvóta.

Miklar endurbætur standa yfir á húsnæði Vísis hf. á Þingeyri og hugbúnaður og vinnslukerfi fyrirtækisins hafa verið endurnýjuð síðastliðin tvö ár. Mikil bjartsýni er á meðal starfsfólksins sem sér vart fram úr verkefnum. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir pólitískan óróleika í kringum sjávarútveginn að undanförnu valda meiri ólgu innan greinarinnar en fréttir af þorskstofninum.



Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, segir að uppbyggingin á Þingeyri sé hluti af endurnýjun allra starfsstöðva fyrirtækisins. „Á Þingeyri erum við að laga húsnæðið að breyttum aðstæðum og nýjum framleiðsluháttum. Við stefndum að því að vinna þrjú til fjögur þúsund tonn fyrir vestan en svo bíða menn bara með krosslagða fingur eftir því sem gerist í júlí.“ Pétur segir engar ákvarðanir hafi verið teknar um að hætta uppbyggingunni sem áformuð er á næstunni. „Ákvörðun um uppbyggingu var tekin áður en veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar barst. Við bíðum bara eftir Stóra dómi eins og aðrir en við erum bundnir af samningum og iðnaðarmennirnir eru byrjaðir.“



Pétur segir að íslenskur sjávarútvegur hafi þurft að þola sveiflur í áratugi af mörgum ástæðum. Niðurskurður aflaheimilda núna falli einfaldlega undir það og við því sé hægt að bregðast. „Ef við vitum að við fáum aukninguna eftir fimm ár þá hægjum við á og bíðum rólegir. En það sem ruglar menn í greininni meira núna en nokkuð annað er pólitískur óstöðugleiki. Stjórnmálamenn eru farnir að gæla við það að ákveða hvar fiskvinnsla verður og hvar ekki auk þess að niðurskurðurinn skili sér ekki til baka. Þetta tal ruglar menn meira en niðurskurður, aflabrestur eða hvað annað. Ég man aldrei eftir svona dimmum tóni í reynslumiklum mönnum og það er komið til vegna pólitískrar umræðu frekar en vondra frétta af þorski.“



Arngrímur Friðgeirsson, verkstjóri hjá Vísi á Þingeyri, segir ríkja mikla bjartsýni meðal starfsfólksins, sem er rúmlega fimmtíu talsins. „Við trúum því að fréttir af niðurskurði hafi ekki neikvæð áhrif á fyrirtækið hérna. Við vinnum á vöktum, svo mikið hráefni berst okkur hingað.“ Arngrímur segir að Vísir sé burðarstólpinn á Þingeyri í atvinnulegu tilliti. „Hér er bullandi uppsveifla og við erum bjartsýn á framhaldið vegna þess að það hefur verið svo mikill kraftur í atvinnulífinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×