Skoðun

Dýrt heilbrigðiskerfi á Íslandi

Heilbrigðiskerfið - Ólafur Örn Arnarson læknir Að undanförnu hefur verið nokkur umræða um rekstur íslenska heilbrigðiskerfisins. Tilefnið er tvær erlendar skýrslur, önnur frá Fraser Institute í Vancouver í Kanada og hin frá OECD. Niðurstaða beggja er að kostnaður við íslenska heilbrigðiskerfið hefur aukist talsvert á undanförnum árum og við erum komin í hóp þeirra þjóða sem eyða hæstu hlutfalli af vergri þjóðarframleiðslu til þessarar þjónustu. Hugsanlegar skýringar eru verulegar launahækkanir heilbrigðisstétta fyrir nokkrum árum og mikill kostnaður við sameiningu spítalanna í Reykjavík en hagræðing af því hefur ekki skilað sér enn. Kanadiska skýrslan er sérstök að því leyti að þar er skoðuð aldurssamsetning þeirra þjóða sem fjallað er um. Kostnaður við þá sem eru eldri en 65 ára er meira en fimm sinnum meiri en kostnaðurinn við yngri hópinn. Í ljós kemur að meðalfjöldi aldraðra þessara þjóða er 14.6 % af fjölda íbúa. Á Íslandi er þessi hópur 11.7 % sem er með því lægsta (Írar eru með 11.2 %), en t.d. er Svíþjóð með 18.4 %. Samkvæmt þessu er íslenska heilbrigðiskerfið eitt það dýrasta í heimi. Árið 2020 verður hlutfall aldraðra hér á landi orðið 15.3 %. Útgjöld til heilbrigðismála munu því aukast verulega á næstu árum vegna mikillar fjölgunar aldraðra.Báðar skýrslurnar skoða ýmsar tölur um árangur þjónustunnar t.d. ungbarnadauða, burðarmálsdauða, meðalaldur, árangur af krabbameinsmeðferð, aðgengi að sérfræði- og spítalaþjónustu, aðgengi að tölvusneiðmyndatökum og segulómrannsóknum. Einnig er skoðað hversu hátt hlutfall einstaklingar greiða og hvernig réttindi sjúklinga eiga innan tryggingakerfis. Alls staðar komum við mjög vel út þannig að faglega virðast málin í góðu lagi hjá okkur. Ljóst er að þær þjóðir sem hér er fjallað um nota ýmsar leiðir til að ná fram sem bestri þjónustu fyrir sem minnstan kostnað. Engin ein leið stendur þar upp úr. OECD skýrslan ræðir um réttindi sjúklinga og kemst að þeirri niðurstöðu að mikið tillit þurfi að taka til þeirra og almenna reglan sé sú að réttast sé að veita sjúklingum þá þjónustu sem þeir þurfa sem fyrst. OECD kemur inn á ýmsa stjórnunarþætti í skýrslunni. Þeir ræða um fyrirkomulag tryggingaþáttarins og finna ýmislegt að einkareknum tryggingakerfum og telja jafnvel að opinber tryggingakerfi, eins og við höfum, tryggi rétt sjúklinganna betur. Þegar kemur að rekstri einstakra þátta verði menn að meta hvort einkarekstur eða opinber rekstur eigi betur við. Þeir telja að einkarekstur eigi betur við í heilsugæslu og sérfræðiþjónustu en um rekstur spítala gildi það ekki endilega. Aðferðin við fjármögnun þjónustunnar er mjög mikilvæg. Í skýrslu OECD kemur skýrt fram sú skoðun að föst fjárlög eru úrelt, dragi úr afköstum og geti verið skaðleg. Mikil áhersla er lögð á afkastatengda fjármögnun fyrst og fremst byggða á DRG kerfinu, en margir hafa reynt blandaða fjármögnun (t.d. Norðmenn) með góðum árangri. Hér erum við mörgum árum á eftir öðrum þjóðum. Um launakerfi heilbrigðisstétta gildir að í tengslum við breytta fjármögnun er rétt að skoða hvort það eigi að afkastatengja þau. Föst laun hafi letjandi áhrif en afkastatengd laun eigi mjög vel við og séu hagkvæm. Í skýrslunni er getið um laun heimilislækna í ýmsum löndum sem eru með þeim hætti en hér á landi voru gerðir launasamningar nýlega sem ganga í þveröfuga átt. Hér á landi stjórnar sami aðili tryggingaþættinum og rekstrarþættinum að verulegu leyti. Margar þjóðir hafa skilið þarna á milli og jafnvel þar sem ríkið stjórnar báðum þáttunum hafa þau falið tveim aðskildum stofnunum hlutverkið. Reynslan hefur verið mjög góð af þessu fyrirkomulagi. Einnig er rétt að skoða aðrar breytingar í stjórnun, draga úr miðstýringu í því skyni að koma í veg fyrir sóun og auka framleiðni hinna ýmsu þátta starfseminnar. Lögð er mikil áhersla á mikilvægi upplýsinga til sjúklinga og að finna leiðir til að leysa vanda þeirra á sem hagkvæmastan hátt. Auka eigi verulega heimahjúkrun og hjúkrunarrými. Allir vita hvernig staðið hefur verið að þeim málum hér á landi sbr. þá atburði sem urðu vegna kjaradeilna við starfsfólk heimahjúkrunar fyrir nokkru . Einnig er hér verulegur skortur á hjúkrunarrými en ríkisstjórnin breytti lögum um framkvæmdasjóð aldraðra á þann hátt að stór hluti hans var tekinn í rekstur stofnana í stað þess að mæta þörf fyrir ný pláss. Því er verulegur skortur á þessari aðstöðu og á annað hundrað sjúklinga hafa þurft að dvelja lengur á bráðasjúkrahúsum við mun meiri kostnað. Eftir lestur þessara skýrslna er ljóst að veruleg sóun á sér stað hér á landi í rekstri heilbrigðisþjónustunnar. Biðlistar hafa verið langir og kostað mikið. Með því að auka heimahjúkrun og fjölga hjúkrunarplássum er hægt að spara mörg hundruð milljónir króna á hverju ári. Sameining spítalanna hefur kostað nokkra milljarða en hagnaður sameiningar verður ekki fyrr en bráðaþjónustan hefur verið færð á einn stað. Hugmyndir stjórnvalda í þeim efnum kosta 40 milljarða og vafasamt er að nokkurn tíma verði byggingar við Hringbraut að veruleika. Möguleiki er að ná hagræðingunni mun fyrr og mun ódýrar með uppbyggingu í Fossvogi skv. tillögum ráðgjafa Ementor í Danmörku. Sú sóun sem á sér stað í heilbrigðisþjónustunni hér á landi skiptir mörgum milljörðum króna á hverju ári. Mjög nauðsynlegar breytingar á rekstri hennar eru eingöngu á valdi stjónmálamanna að leysa .



Skoðun

Sjá meira


×