Handbolti

Ágúst hættir með færeyska landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst stýrði færeyska landsliðinu samhliða starfi sínu hjá Val.
Ágúst stýrði færeyska landsliðinu samhliða starfi sínu hjá Val. vísir/bára

Ágúst Jóhannsson er hættur sem þjálfari færeyska kvennalandsliðsins í handbolta eftir tveggja ára starf.

„Það eru aðallega tvær ástæður. Í fyrsta lagi kórónuveirufaraldurinn sem hefur orsakað það að ég hef ekki komist í verkefni og verður þannig áfram í sumar. Ég þyrfti að fara í sóttkví á báðum stöðum og fyrir lítið samband eins og það færeyska er kostnaðarsamt að vera með þjálfara í öðru landi sem getur ekki mætt í verkefnin,“ sagði Ágúst í samtali við Henry Birgi Gunnarsson í Sportinu í dag.

„Svo vilja þeir yngja liðið og fara í enn frekari uppbyggingu. Þar af leiðandi vildu þeir helst hafa mig á staðnum. Það kom ekki til greina af minni hálfu að flytja. Þannig við ákváðum að setja punktinn fyrir aftan þetta eftir tvö góð ár.“

Ágúst gengur sáttur frá borði. „Þetta hefur gengið fínt og við höfum unnið góða sigra. Það hafa verið miklar framfarir á leik liðsins. Við höfum tekið inn margar ungar og efnilegar stelpur,“ sagði þjálfarinn.

„En ég hef fullan skilning á þessu og að hafa þjálfara á staðnum því kannski níutíu prósent leikmanna spilar í Færeyjum.“

Klippa: Sportið í dag - Ágúst hættur með færeyska landsliðið

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×