Skoðun

Jákvæð samskipti

Árni Guðmundsson skrifar
Einelti er því miður afar alvarlegt samfélagslegt vandamál og sem slíkt er nauðsynlegt að uppræta það eins og frekast er kostur og helst með öllu. Ef grannt er skoðað þá snúast eineltismál undantekningarlaust um óboðleg samskipti milli fólks. Kjarninn í lausn þeirra er því að hver og einn líti í eigin barm og ákveði að eiga fyrst og fremst í jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum við umhverfi sitt og ekki síst vænta þess að aðrir geri slíkt hið sama.

Einelti spyr ekki um aldur, kyn, stétt eða stöðu, það þrífst einfaldlega þar sem það er látið viðgangast. Sem betur fer þá hefur á síðustu árum orðið nokkur vakning og margir aðilar í samfélaginu hafa lagst á eitt í baráttu gegn þessu félagslega böli sem einelti vissulega er.

Eitt dæmi um þessa vakningu er aukin umfjöllun fjölmiðla. Umfjöllun getur verið tvíbent, ekki síst í viðkvæmum og flóknum einstaklingsmálum. Mál eða málsatvik eru ekki öllum kunn þar sem fagfólk getur oft ekki tjáð sig um einstök mál vegna trúnaðar í starfi. Oft á tíðum hefur slík umræða verið áberandi og snúist um börn og ungmenni. Einelti einskorðast ekki við aldur eins og fram hefur komið og sem betur fer hefur umræðan undanfarið tekið æ meira mið af því. Umræðan hefur auk þess færst nokkuð inn á jákvæðari brautir eins og t.d. umfjöllun um verulegan árangur í því að efla jákvæð samskipti í skólum og jákvæðan skólabrag.

Málefnið er margþætt og því nauðsynlegt að takast á við það á mörgum plönum. Til þess að freista þess að ná utan um viðfangið var árið 2009 settur á stofn óformlegur starfshópur með aðkomu þáverandi félags- og tryggingamálaráðuneytis, mennta- og menningarráðuneytis og þáverandi heilbrigðisráðuneytis ásamt Lýðheilsustöð. Um mitt ár 2010, eftir víðtæka greiningu og kortlagningu á umfangi verkefnisins, sendi hópurinn frá sér greinargerð þar sem fram komu tæplega 30 tillögur um aðgerðir gegn einelti. Sjá má greinargerðina í heild á vefsíðunni www.gegneinelti.is. Í henni kemur jafnframt fram að vegna umfangs málsins hafi verið tekin ákvörðun um að afmarka umfjöllun við skóla og vinnustaði.

Tillögum má gróflega skipta í þrjá hluta, almennar aðgerðir, sérstakar aðgerðir er snúa að skólum og að lokum tillögur um aðgerðir á vinnustöðum. Tillögur hópsins eru tæplega 30 talsins og spanna eins og áður sagði vítt svið eða allt frá því að efna til vitundarvakningar í samfélaginu til þess að vinna að áhættumati á vinnustöðum.

Sérstök verkefnastjórn hefur verið sett á laggirnar í samræmi við tillögur starfshópsins en hana skipa: Ágústa H. Gústafsdóttir, fulltrúi fjármálaráðuneytisins sem jafnframt er formaður, Guðni Olgeirsson, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Valgerður Gunnarsdóttir og Þór Þórarinsson frá velferðarráðuneytinu. Með verkefnastjórninni starfa tímabundið þrír einstaklingar í rúmlega einu stöðugildi sem hafa það hlutverk að stuðla að því að tillögur starfshópsins komist til framkvæmda í samræmi við forgangsröðun verkefnisstjórnar.

Eðli málins samkvæmt þá er verið að vinna á mörgum sviðum sem ekki er kleift að gera grein fyrir nema að hluta í stuttri grein eins og þessari. Það sem er sennilega sýnilegast er baráttudagur gegn einelti 8. nóvember ár hvert. Slíkur dagur var fyrst haldinn 2011 og markmiðið með baráttudeginum er að vekja sérstaka athygli á málefninu. Undirritun fulltrúa félaga, samtaka og opinberra stofnana á þjóðarsáttmála gegn einelti var þar einn liður. Sáttmálinn er einnig grunnur að frekari vinnu, við hann má bæta og miða í þeim efnum við þarfir þeirra fjölmörgu félaga og samtaka er undirrituðu sáttmálann í Höfða í fyrra. Sáttmálinn verður því útfærður enn frekar með undirmarkmiðum og fjölbreyttum verkefnum.

Mörg verkefni sem tengjast baráttudeginum eiga sér langan aðdraganda, eru ólík en eiga það öll sammerkt að vera liður í að efla jákvæð samskipti í samfélaginu. Markmiðið með baráttudeginum er því ekki það að efna til sérstakrar flugeldasýningar á þessum tiltekna degi, dagurinn er fremur tilefni til þess að gefa gaum og benda á margt það sem vel er gert í þessum efnum. Baráttudagurinn er því ekki síður dagur til þess að líta yfir farinn veg, þétta raðirnar, ákveða næstu skref og bretta upp ermarnar hver í sínum mikilvæga ranni. Annað verkefni sem unnið er að um þessar mundir varðar forvarnar- og viðbragðsáætlanir á vinnustöðum og nauðsyn þess að þær séu fyrir hendi og enn annað verkefni var að koma á fót fagráði um einelti í grunnskólum í samræmi við nýja reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum.

Grundvallaratriðið er að við öll sem byggjum þetta samfélag leggjum okkar af mörkum við að stunda og stuðla að jákvæðum samskiptum í okkar nær- og fjærumhverfi og einnig á opinberum vettvangi og á netinu.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×