Erlent

Um 75 milljón ungmenni eru án vinnu

Ungmenni í Kína í atvinnuleit.
Ungmenni í Kína í atvinnuleit. Fréttablaðið/AFP
Nær 13 prósent allra ungmenna í heiminum á aldrinum 15 til 23 ára eru án atvinnu eða alls 75 milljónir. Ástandið mun ekki breytast verulega á næstum fjórum árum, að því er kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem BBC vitnar í. Um sex milljónir ungmenna um heim allan hafa misst móðinn og gefist upp. Þeim finnst sem samfélagið hafi hafnað þeim.

Atvinnulausum ungmennum hefur fjölgað um fjórar milljónir frá árinu 2007. Ástandið er sérstaklega slæmt í aðildarríkjum Evrópusambandsins þar sem fimmta hvert ungmenni er án atvinnu.

Enn verri er staðan í Norður-Afríku. Þar eru 27,9 prósent ungmenna atvinnulaus. Í Mið-Austurlöndum er talan 26,5 prósent. Í Austur-Asíu er atvinnuleysi 2,8 sinnum meira hjá ungu fólki en fullorðnum.

Vegna aukins atvinnuleysis fjölgar þeim ungmennum sem ákveða að halda áfram námi. Önnur þiggja þau hlutastörf sem í boði eru eða leita að störfum sem ekki krefjast fagmenntunar.

Alþjóðavinnumálastofnunin hvetur stjórnvöld til þess að setja atvinnusköpun í forgang. Í skýrslu stofnunarinnar segir að ungt fólk sem ekki geti nýtt sér menntun sína eigi á hættu að glata niður faglegri þekkingu sinni. Batni ekki atvinnumarkaðurinn sé hætta á að ungmennin verði ekki gjaldgeng á sínu sviði.

- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×