Hollenska félagið This is City Attractions hefur stefnt Esju Attractions móðurfélagi FlyOver Iceland sem býður upp á sýndarflugferð yfir stórbrotna náttúru Íslands. Viðskiptablaðið greinir frá.
Hollenska félagið sem er 2% hluthafi í Esju Attractions gerði samstarfssamning við Esju og aðstoðaði við að koma FlyOver Iceland af stað. Samkvæmt Viðskiptablaðinu fólst í samningnum að ef öll skilyrði samningsins yrðu uppfyllt fengi hollenska félagið hlutdeild í afkomu FlyOver Iceland ásamt greiðslu fyrir aðstoðina.
Í samtali við Viðskiptablaðið segir Gunnar Jónsson, lögmaður Esju Attractions að samningurinn hafi verið til níu mánaða frá febrúar 2017 en myndi framlengjast um tvö ár næðist ákveðinn árangur. Tilskyldur árangur hafi hins vegar ekki náðst og því liti Esja svo á að samningurinn hafi runnið út.
This is City sætti sig þó ekki við þann málflutning og hefur nú leitað til dómstóla til að leita réttar síns.
„Það er réttur hvers manns eða félags að biðja dómstóla að hlusta á umkvörtunarefni sem þau kunna að hafa og kveða upp úr um þau. En Esja telur sig vera algjörlega í rétti og samningurinn hafi runnið út samkvæmt efni sínu,“ segir Gunnar Jónsson í samtali við Viðskiptablaðið.
Hluthafi höfðar mál gegn móðurfélagi FlyOver Iceland

Tengdar fréttir

Fyrstu hundrað gestir laugardagsins fljúga frítt
FlyOver Iceland hefur starfsemi sína hér á landi í dag. Afþreyingin er að kanadískri fyrirmynd en sýningin FlyOver Canada hefur notið vinsælda í Vancouver.

Agnes, Eva og Heiðdís til FlyOver Iceland
Þetta kemur fram í tilkynningu frá FlyOver Iceland.