Framkvæmdastjóri hjá Avis bílaleigu segir að fall WOW AIR hafi haft í för með sér um tuttugu prósent samdrátt hjá fyrirtækinu síðustu daga. Hann telur að höggið sé mun meira hjá minni fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem geti þýtt tímabærar sameiningar á næstu mánuðum og misserum.
Fyrirtækið Avis er eitt stærsta bílaleigufyrirtæki landsins og er með fjölda leigustöðva um allt land. Axel Gómez framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs segir að brotthvarf WOW AIR af flugmarkaðnum hafi haft mikil áhrif síðustu daga.
„Þetta hefur verið svona í takt við það sem við bjuggumst við og við erum að fylgjast vel með hversu alvarlegt það verður. En síðustu daga hefur samdrátturinn verið um 20%,“ segir Axel.
Axel segir að fyrirtækið hafi byrjað að undirbúa þessa stöðu strax í vetur og telur að höggið sé mun meira hjá minni fyrirtækjum.
„Þessi staða hefur gríðarlega áhrif á minni fyrirtæki. Þetta gæti því haft þau áhrif að fyrirtæki sameinist sem er löngu tímabært. Þau hafa verið alltof mörg,“ segir hann.
Hann telur að sumarið í ferðaþjónustunni verði gott en það sé meiri óvissa með hvað tekur við eftir það.
„Við náttúrulega sjáum að það er búið að vinna ótrúlegt kynningar-og markaðssstarf hér á landi. Það er ekki búið að segja upp ferðum í sumar en ég hef meiri áhyggjur af haustinu og vetrinum þar sem WOW AIR var mjög sterkt. Sumarið verður hins vegar gott,“ segir Axel Gómez.
Bílaleiga hefur dregist saman um fimmtung hjá AVIS
