Skoðun

Umhverfismál í deiglunni

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Umhverfisbylgjan sem umhverfisráðherra skrifar um í Fbl. 9. janúar rís hærra með hverju ári. Staðreyndir og reynsla heimsbyggðarinnar sjá til þess, ásamt framsækinni pólitískri stefnu margra aðila. Ríkisstjórn Íslands svarar kalli tímans svo um munar og við getum glaðst yfir ýmsum framförum í umhverfismálum. Hér, eins og annars staðar í heiminum, verður að gæta að jafnvægi náttúrunytja og náttúruverndar; annað án hins er ekki í boði. Það tekst okkur æ oftar og víðar, eins þótt við verðum að vanda okkur enn betur.

Orkustefna

Unnið er í fyrsta sinn að heildstæðri orkustefnu. Á því sviði bryddar nú á nýju verkefni: Vindorku. Áhugasamir heimamenn og erlend fyrirtæki leita fyrir sér um staðsetningu vindorkugarða á landsbyggðinni og sveitarfélög bregðast við. Löggjöf, staðarvalsgreiningu, takmörkunum og heldarskipulagi þarf að koma fljótt í gott horf. Vindorka er nytsamur orkukostur en áhersla á hana og framkvæmdahraði verður, eins og á við um alla aðra orkuframleiðslu, að haldast í hendur við orkuþörf og innlenda orkunýtingu. Aðeins einn vindorkugarður er í Rammaáætlun; sá sem Landsvirkjun hefur áhuga á vestan Hofsjökuls.

Samstætt við orkustefnuna eru orkuskipti í samgöngum, fiskveiðum og fiskiðnaði. Telja má upp rafvæðingu hafna og hluta skipa- og bátaflotans, öku- og vinnutækja og flugs (að allstóru marki). Til þessa þarf hundruð megawött af rafafli. Annar hluti orkuskipta snýst um notkun vistvæns eldsneytis á brunavélar í stórum vinnutækjum, stórum bílum, flugvélum og skipum. Þar má nefna metan, alkóhól (metanól og etanól), lífdísil og fleira. Vetni er mikilvægur orkugjafi í sérstaka gerð rafbíla. Raforku þarf til að framleiða þessi efni. Við notkun eða framleiðslu vistvæns eldsneytis, tækja, rafhlaða eða sólarsella geta orðið til gróðurhúsagös. Þá virkni verður að kolefnisjafna. Þetta á t.d. við um framleiðslu eða endurnýtingu áls og kísils. Auknar rannsóknir og meira fé þarf til að styðja við kolefnisbindingu með uppgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Þar hvílir mestur þungi á almenningi, fyrirtækjum, samtökum og sveitarfélögum, með stuðningi ríkisins. Frumvarp um ívilnun vegna kolefnisbindingar liggur brátt frammi að mínu frumkvæði.



Innlend eldsneytisframleiðsla

Hér á landi eru góð tækifæri til innlendrar eldsneytisframleiðslu og nýtingar. Hentug efni, þó dýrari séu og nú innflutt, duga á bíla, báta og skip, einkum metan, vetni og alkóhól. Skýrsla, sem ég bað um, er nú unnin í umsjá ráðherra orkumála og nýsköpunar, og mun skýra hvað við getum gert. Metanframleiðslu er unnt að margfalda með því að nýta útblástur t.d. jarðvarmaorkuvera. Carbon Recycling getur margfaldað metanólframleiðslu og vetni, framleitt úr vatni með einfaldri rafgreiningu, er á leið með að verða mikilvægur orkukostur í sumar gerðir bíla.



Plastógnina verður að kljást við

Plastagnir eru í 70% fýla sem rannsakaðir hafa verið hér á landi og finnast í kræklingi á strandsvæðm. Nýgerð aðgerðaráætlun umhverfisráðuneytisins leiðbeinir okkur að nærri 20 leiðum til að bregðast við. Það er mikil áskorun til almennings, fyrirtækja, stofnana og félaga að fylgja duglega því sem að hverjum og einum snýr. Jurtaríkið getur séð okkur fyrir miklu efni í hluti sem plast er nú notað til. Gríðarstór verkefni bíða: Hreinsun plasts úr umhverfinu og alvöru endurnýting eða mengunarlaus/lítil eyðing þess. Því miður eru örlög plasts frá Íslandi um þessar mundir, þ.e. háhitabruni í útlöndum, ekki ásættanleg.

Loftslagsráð, Loftlagssjóður, endurskoðuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum, endurskoðuð ríkisfjármálaáætlun í ljósi aðstæðna í efnahagsmálum, jafnréttis-, kjara- og umhverfismálum, ný lög um landgræðslu og skógrækt, endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana, byggðaáætlun og innviðaáætlun til verndar náttúru og menningarminja og ... Listinn gæti verið lengri en þessi verkefni ríkisstjórnar og Alþingis eru til marks um hitann í deiglu umhverfismála. Við þurfum engu að síður að efla mjög andófið gegn hlýnun loftslagsins og aðlögun að óhjákvæmilegum breytingum á lífsskilyrðum jarðarbúa. Yfirmarkmið þriggja flokka stjórnar Katrínar Jakobsdóttur er kolefnishlutlaust Ísland fyrir 2040. Það er risaskref á næstu tveimur áratugum.

Höfundur er 2. varaformaður Umhverfis- og samgöngunefndar 




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×