„Við vorum að spila ágætlega en lokakaflinn í fyrri og seinni hálfleik drepur okkur,“ sagði Aron í samtali við Tómas Þór Þórðarson í leikslok.
„Við erum að spila 50 mínútur frábærlega gegn þessu liði. Það segir mikið um þetta lið en það er ekki nóg sem er súrt,“ segir Aron og hann segir að liðið hafi trúað því allan tímann að liðið gætið unnið sterkt lið Króata:
„Þetta er drullufúlt og við trúðum því svo mikið að við myndum vinna. Við lögðum allt í þetta. Það þarf bara að bíta í þetta og fókusa á næsta leik.“
Var frammistaða hans í kvöld betri en hann þorði að vona fyrir mótið verandi með svo marga nýliða í hópnum?
„Aðeins verra. Ég vildi vinna leikinn,“ sagði Aron og brosti við tönn en hélt svo áfram: „Ég hef haft bullandi trú á þessu frá degi eitt. Við sýndum það í dag. Við getum keppt við þessi bestu lið.“
„Það þarf að spila 60 mínútur nánast fullkominn leik fyrir okkur til þess að vinna þá en það var ekki að sjá að það væru fullt af nýliðum. Við vorum drullu öruggir og lítið um feila.“
„Þegar þú tapar tveimur til þremur boltum gegn svona liði þá kostar það þig bara tvö til þrjú mörk. Því miður þá tókum við tvo svoleiðis kafla. Við þurfum að stytta þá kafla á morgun,“ sagði Aron að lokum.