Innlent

Ingibjörg Þorbergs látin

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Umslag utan af einni plötu Ingibjargar, Man ég þinn koss.
Umslag utan af einni plötu Ingibjargar, Man ég þinn koss.
Tónlistarkonan og brautryðjandinn Ingibjörg Þorbergs lést í dag á Hrafnistu í Reykjanesbæ, 92 ára að aldri. Ingibjörg var heiðursfélagi Félags tónskálda og textahöfunda og „manna duglegust að mæta á félagsfundi á meðan heilsan leyfði,“ eins og segir í tilkynningu frá félaginu.

Ingibjörg, sem hét fullu nafni, Ingibjörg Kristín Þorbergsdóttir, var fædd þann 25. október 1927. Ingibjörg var frumkvöðull á sviði laga- og textasmíðar en hún var fyrsta konan sem söng eigið lag inn á hljómplötu hér á landi.

Ingibjörg útskrifaðist sem klarínettleikari frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1952. Árið eftir komu fyrstu tvær plötur Ingibjargar út.

Stóran hluta ævi sinnar starfaði Ingibjörg hjá Ríkisútvarpinu við dagskrárgerð og þáttastjórn. Hún stjórnaði meðal annars barnatíma sjónvarpsins, ásamt því að sjá um ýmsa viðtals- og tónlistarþætti. Ingibjörg var varadagskrárstjóri og dagskrárstjóri RÚV 1981-1985.

Ingibjörg skilur eftir sig fjölda þekktra laga, til að mynda við Aravísur Stefáns Jónssonar. Á meðal þekktustu laga Ingibjargar er lag hennar við kvæðið Hin fyrstu jól, eftir Jóhannes úr Kötlum. Það var fyrsta íslenska jólalagið sem kom út á plötu, ef sálmar eru undanskildir.

Ingibjörg var gift Guðmundi Jónssyni píanóleikara frá árinu 1976. Guðmundur lést árið 2010. Hann lét eftir sig fjögur börn úr fyrra hjónabandi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.