Enski boltinn

Ensku blöðin ósammála um framtíð Paul Pogba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba í einum af fáum leikjum sínum með Manchester United á leiktíðinni en þarna er hann í leik á móti Arsenal 30. september síðastliðinn.
Paul Pogba í einum af fáum leikjum sínum með Manchester United á leiktíðinni en þarna er hann í leik á móti Arsenal 30. september síðastliðinn. Getty/Ash Donelon

Paul Pogba hefur ekki spilað með Manchester United liðinu síðan í lok september og Frakkinn hefur verið orðaður við Real Madrid í mjög langan tíma. Svo mikil er óvissan að ensku blöðin slá nú upp tveimur mjög mismundandi fréttum um hann.

Paul Pogba hefur verið að glíma við ökklameiðsli síðan í september en síðasti leikur hans með liði Manchester United var á móti Arsenal 30. september síðastliðinn.

Paul Pogba hefur ekki farið leynt með það að hann vill komast til spænska félagsins Real Madrid og knattspyrnustjóri Real Madrid, Zinedine Zidane, vill líka fá hann til sín.

Stuðningsmenn Manchester United hafa fengið að kynnast lífinu án Paul Pogba síðustu mánuði og það er spurning hvort að þetta sé rétti tíminn til að selja hann.



Það er hins vegar mikil óvissa með hvað gerist þegar félagsskiptaglugginn opnar í janúar og Paul Pogba verður búinn að ná sér af meiðslunum.

Daily Mail slær því upp að Manchester United ætli ekki að leyfa honum að fara til Real Madrid í janúar og að Ole Gunnar Solskjær ætli sér að nota hann á seinni hluta tímabilsins.



Í Mirror er aftur á móti allt önnur sýn á málið. Þar kemur fram að leikmenn og starfsmenn Manchester United séu sannfærðir um að Paul Pogba hafi spilað sinn síðasta leik fyrir Manchester United og að hann verði seldur í janúar.

Paul Pogba var keyptur til Manchester United fyrir 105 milljónir evra í ágúst 2016 og hann er enn „bara“ 26 ára gamall. Ef enska félagið mun selja hann þá mun hann örugglega kosta sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×