Enski boltinn

Breytingar á VAR um jólin á öllum völlum nema hjá Liverpool og Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tilkynning um VAR á heimavelli Tottenham.
Tilkynning um VAR á heimavelli Tottenham. Getty/Ivan Yordanov

Enska úrvalsdeildin hefur svarað mikilli gagnrýni á útfærslu sína á Varsjánni á þessu tímabili með því að auka upplýsingaflæði til áhorfenda á leikvöllum ensku úrvalsdeildarinnar frá og með hátíðarleikjunum.

Áhorfendur heima í stofu hafa fengið að sjá af hverju mörk eru dæmd af eða víti eru dæmd út frá VAR en þeir sem er á vellinum hafa hingað til ekki fengið að sjá neitt nema sjálfa niðurstöðuna.



Þetta mun nú breytast frá og með jólaleikjunum í ensku úrvalsdeildinni samkvæmt frétt á Sky Sports.

Frá og með leikjum 21. desember eða leikjunum á öðrum degi jóla þá munu koma fram meiri upplýsingar á skjánum. Hverjar þær verða nákvæmlega og hver endanlega útfærsla verður kemur ekki endanlega í ljós fyrr en á fundi á föstudaginn.

Félögin í ensku úrvalsdeildinni hafa þegar samþykkt það að auka upplýsingaflæðið þegar atvik eru í skoðun hjá VAR.

Sem dæmi má nefna að áður stóð á skjánum: „Möguleg vítaspyrna skoðuð“ en hér eftir gæti staðið „Möguleg vítaspyrna vegna hendi skoðuð“. Um leið og atvik er farið í skoðun úi VAR-herberginu í Stockley Park þá fá áhorfendur á vellinum að vita hvað sé verið að skoða.

Enska úrvalsdeildin mun halda áfram að skoða myndbönd af atvikum sem er breytt í VAR en aðeins eftir að dómarinn hefur tekið endanlega niðurstöðu.



Þetta snýr hins vegar aðeins að átján af tuttugu liðum ensku úrvalsdeildarinnar eða þeim liðum sem hafa risaskjá á sínum leikvöngum. Það eru nefnilega engir skjáir á Old Trafford og Anfield. Liverpool og Manchester United þurfa ekki að setja upp slíka skjái samkvæmt reglum leiksins.

Arsene Wenger, nýr yfirmaður þróunarmála fótboltans hjá FIFA, er einn af þeim sem hefur gagnrýnt þetta ástand á Old Trafford og Anfield og segir að þessi tvö risafélög þurfi að breyta því hið fyrsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×