Umfjöllun og viðtöl: Valur - Haukar 69-74 | Haukar lögðu meistarana á Hlíðarenda

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
Haukar unnu sterkan sigur
Haukar unnu sterkan sigur vísir/bára

Haukar fengu góða jólagjöf í formi sigurs á toppliði Vals í Dominosdeild kvenna í kvöld. Í sveiflukenndum leik þar sem hvorugt liðið sýndi allar sínar bestu hliðar þá höfðu Haukar betur að lokum og enduðu á að vinna 74-69 sigur á Íslandsmeisturum Vals.

Haukar voru frá fyrstu mínútu mjög grimmir í vörn og gerðu Völsurum erfitt fyrir í sókninni. Valur kom samt til baka og gátu með því að pressa á Hauka fengið þá til að gera dýr mistök sem leiddu til karfa hjá Val.

Í þriðja leikhluta byrjuðu Haukar aftur að spila hart og fóru að raða þristum sem gerði Val erfitt fyrir. Gestirnir úr Hafnarfirði leiddu inn í fjórða leikhluta með tveimur stigum en með góðum kafla í lokafjórðungnum gátu þær unnið að lokum með fimm stigum. Haukar eru þar með annað liðið á tímabilinu sem ná að vinna Valsliðið sem sumir héldu að gætu ekki tapað leik.

Af hverju unnu Haukar?

Haukar náðu að loka nægilega vel á Valsara og taka þá út úr sóknaraðgerðum sínum. Þar að auki settu þær upp skotsýningu í þriðja leikhluta og náðu að hemja Kiönu Johnson sem reyndi að taka yfir undir lokin fyrir Val. Flottur liðssigur hjá Haukum

Bestu leikmenn vallarins

Randi Brown var best fyrir Hauka í kvöld og kom þeim yfir erfiðan hjalla í þriðja leikhluta með þremur þristum í röð. Hún lauk leik með 17 stig, 13 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Aðrar góðar voru Þóra Kristín Jónsdóttir með 14 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar og varnarjaxlinn Sigrún Björg Ólafsdóttir sem spilaði afbragðsvörn og endaði með hæsta plús/mínus-tölfræði síns liðs. Liðið vann með 18 stigum á meðan að hún var inn á.

Hjá Val var Kiana Johnson best með 19 stig, 11 fráköst og 9 stoðsendingar.

Tölfræði sem vakti athygli

Villufjöldi milli liðanna var áhugaverður í leiknum, en Valur fékk sína fjórðu villu í leiknum á 34. mínútu leiksins á meðan að Haukar voru þá með 13 villur.

Hvað gekk illa?

Valur átti erfitt með að skora á köflum og þær söknuðu augljóslega Helenu sem opnar svo oft fyrir þriggja stiga skyttur síns liðs með því að draga vörnina inn í teig þegar hún fær hann þar. Þristarnir voru ekki að detta fyrir Valsara heldur svo þær lutu í lægra haldi.

Hvað næst?

Þá tekur við jólafrí hjá báðum liðum. Hvorugt lið þarf að spila leik fyrr en á næsta ári. Haukar hefja nýtt ár á því að taka á móti KR í Ólafssal á Ásvöllum 4. janúar kl.16:00. Valur byrjar nýtt ár á því að keppa við Skallagrím í Origo-höllinni 5. janúar kl.16:15.

Þóra Kristín: Þetta er geðveikt

Þóra Kristín var heldur betur sátt við sigur Haukastúlkna í kvöld á Íslandsmeisturum Vals, 74-69. Hún átti meðal annars skemmtilega fléttu á lokasprettinum þar sem að hún varði sniðskot Sylvíu Rúnar hjá Val sem hefði komið Völsurum í höggfæri að vinna leikinn.

„Þetta var frekar lélegt, sko. Ég missti boltann en náði einhvern veginn að komast fyrir hana og slapp við villuna,“ sagði Þóra um varða skotið, en hún tapaði einmitt boltanum en náði að elta uppi Sylvíu Rún og verja skotið.

Sókn Hauka var ekki jafn beitt og vörnin og Þóra var meðvituð um það eftir leikinn. „Sóknin hefur verið stirð allt tímabilið en það var vörnin í dag sem skilaði þessu,“ sagði hún. Skotnýting Vals var einmit frekar slæm í kvöld, aðeins 33% yfir heildina.

Kiana Johnson reyndi sitt besta til að taka yfir í lok leiks en það gekk ekki sem skyldi, enda höfðu Haukar lagt upp með að loka á hana í leiknum. „Við settum upp og reyndum svolítið að loka á Kiönu þannig að hún þurfti að losa sig við boltann. Það gekk ágætlega og það skilaði þessum sigri,“ sagði Þóra um áætlun liðsins til að vinna Val.

Þá fara bæði lið í jólafrí og Þóra Kristín er væntanlega sátt með jólagjöfina í ár. „Já, þetta er geðveikt!“ segir hún og brosir kampakát eftir góðan sigur á Val.

Guðbjörg: Fannst við tapa þessu sjálfar

„Mér fannst við tapa þessu sjálfar, vorum ekki að spila nógu góðan sóknarleik,“ sagði Guðbjörg Sverrisdóttir, fyrirliði Vals, um tap liðsins gegn Haukum í kvöld, 69-74.

Haukar spiluðu stífa vörn á Valsara sem hraðaði leiknum þeirra meira en Guðbjörg vildi. „Í byrjun fyrsta og þriðja leikhluta vorum við að spila rosalega hraðan sóknarleik, kannski of hraðan,“ sagði hún og bætti við að þetta væri samt kannski meira spurning um hvernig týpa af hröðum leik þær væru að spila og það hafi ekki hentað þeim. „Það kom svolítið í bakið á okkur.“

Sóknin hjá Val gekk illa á köflum mögulega vegna þess að liðið vantaði systur Guðbjargar, Helenu Sverrisdóttur. „Já, stöm sókn. Auðvitað söknum við Helenu, hún er besti leikmaðurinn á landinu og það er stórt skarð að fylla í,“ sagði Guðbjörg og ræddi að þær þyrftu meira að leita inn í teig en án stórs leikmanns eins og Helenu væri það erfitt. „Þá erum við dálítið að leggja traustið í að við setjum þriggja stiga skotin og leikurinn okkar fer svolítið mikið fram utan þriggja stiga línunnar. Það hefur ekki gengið nógu vel hingað til,“ sagði hún, enda hitti Valur aðeins úr 29% þriggja stiga skota sinna.

Þriggja stiga skotin voru aftur á móti að detta betur hjá Haukum í kvöld. „Já, þær enduðu með geggjaða nýtingu í þriggja stiga skotum. Þegar Randi fór að detta í gang og setti þrjú erfið skot í röð þá er lítið sem hægt var að gera þegar sjálfstraust þeirra var svona hátt,“ sagði Guðbjörg um þrjú erfið skot sem bandarískur leikmaður Hauka, Randi Brown, setti á stuttum kafla í þriðja leikhluta. Haukar hittu einmitt úr 43% þriggja stiga skota sinna.

Guðbjörg og Valsarar eru þá komnar í jólafrí og hún segir að líkaminn verði tekinn í gegn. „Lyftingarsalurinn í jólafríinu, númer eitt, tvö og þrjú. Svo er Darri eflaust með eitthvað gott plan fyrir okkur,“ bætir hún við að lokum áður en hún heldur inn í búningsklefann og jólafríið góða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira