Körfubolti

Sextíu stiga leikur hjá Harden | Ellefti sigur Milwaukee í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harden skoraði 60 stig á 31 mínútu gegn Atlanta.
Harden skoraði 60 stig á 31 mínútu gegn Atlanta. vísir/getty

James Harden skoraði 60 stig þegar Houston Rockets kjöldró Atlanta Hawks, 158-111, í NBA-deildinni í nótt.

Harden vantaði aðeins eitt stig til að jafna félagsmet Houston yfir flest stig í einum leik. Hann á metið sjálfur.

Harden skoraði stigin 60 á aðeins 31 mínútu. Hann lék ekkert í 4. leikhluta enda úrslitin löngu ráðin. Houston er í 4. sæti Vesturdeildarinnar.


Trae Young skoraði 37 stig fyrir Atlanta sem hefur tapað tíu leikjum í röð og er á botni Austurdeildarinnar.

Þrír aðrir leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt.

Milwaukee Bucks vann sinn ellefta leik í röð þegar liðið bar sigurorð af Charlotte Hornets, 137-96.

Giannis Antetokounmpo skoraði 26 stig fyrir Milwaukee á aðeins 20 mínútum. Níu leikmenn liðsins skoruðu tíu stig eða meira í leiknum.

Philadelphia 76ers vann nauman sigur á Indiana Pacers, 119-116. Þetta var þriðji sigur Philadelphia í röð.

Joel Embiid skoraði 32 stig fyrir Philadelphia og Tobias Harris 22. Ben Simmons var með 15 stig og 13 stoðsendingar.

Þá vann Sacramento Kings Denver Nuggets, 100-97, í framlengdum leik. Harrison Barnes skoraði 30 stig fyrir Sacramento.

Úrslitin í nótt:
Houston 158-111 Atlanta
Milwaukee 137-96 Charlotte
Philadelphia 119-116 Indiana
Sacramento 100-97 Denver

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.