Skoðun

Borgar­full­trúa á fæðis­fé fanga

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Umræðan um kostnað við veitingar til handa kjörnum fulltrúum í borgarstjórn Reykjavíkur vegna reglulegra funda er góð áminning og er í raun öllum hollt að íhuga hversu mörgum krónum varið er í mat dag frá degi.Borgarfulltrúar - og starfsmenn - snæða kvöldverð sem kostar um fjögur þúsund krónur á mann og gera má ráð fyrir að þeir hafi borðað ýmislegt annað yfir daginn. Fangar fá aftur á móti 1.500 krónur á dag í svonefndan fæðispening og þurfa að kaupa matinn í verslun fangelsisins þar sem verðlag er hærra en gerist og gengur. Þessi upphæð þarf að duga fyrir öllum mat viðkomandi í 24 klukkustundir.Fangar fá einnig dagpening eða 630 krónur hvern virkan dag en sú upphæð á að duga fyrir daglegri umhirðu, þ.e. til kaupa á hreinlætisvörum. Rétt rúmlega þrjú þúsund krónur á viku þar, sem er óbreytt upphæð frá 01/01/2006. Vart þarf að taka fram að verulega er lagt á þær vörur einnig auk þess sem tannviðgerðir eru dregnar af dagpeningum. Og auðvitað greiða fangar líka mun hærra verð en gengur og gerist fyrir símtöl og þeir þurfa eins og allir aðrir að kaupa sokka og nærbuxur svo örfátt sé nefnt.Mögulega vilja margir föngum allt það versta. En flestir rétt þenkjandi samfélagsþegnar ættu að sjá sóma í því að menn og konur á jaðrinum njóti engu að síður mannlegrar reisnar. Því hvetur Afstaða enn og aftur ráðherra fangelsismála til að endurskoða þessar nauðsynlegu greiðslur, með tilliti til raunverulegra aðstæðna fanga. Við þá skoðun mætti til dæmis líta til dagpeninga öryrkja og að um greiðslurnar hækki miðað við vísitölu. Jafnframt ætti að leggja blátt bann við skerðingum á þessum lágmarks greiðslum.Að því sögðu vill Afstaða minna á að afar erfiður tími er framundan í fangelsum landsins en ekki síður hjá fjölskyldum þeirra sem inni sitja. Standi hugur til þess að gleðja fanga um jól getur Afstaða haft þar milligöngu um.Höfundur er formaður Afstöðu, félags fanga.


Tengdar fréttir
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.