Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - Tindastóll 88-100 | Auðvelt hjá Stólunum

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
vísir/daníel
Tindastóll gerði góða ferð til Reykjavíkur í kvöld þegar þeir heimsóttu Fjölnismenn í Dalhúsum. Eftir rólega byrjun skildu þeir Fjölni eftir og þrátt fyrir hetjulega endurkomu heimamanna í þriðja kláraði Tindastóll leikinn 88-100.

Frá fyrstu mínútunum virtust Fjölnismenn vera úr takti og lítið gekk hjá þeim sóknarlega. Slakar tímasetningar á sendingum og hálf opin skot sem fóru ekki niður urðu til þess að Tindastóll náði að breikka bilið í fyrri hálfleik og höfðu 22 stiga forystu eftir 20 mínútur.

Fjölnir komu út úr hálfleikshléinu í svæðisvörn og náðu að sprengja upp leikinn í þriðja leikhluta. Áhangendur heimamanna voru vaknaðir til lífsins og á tímabili leit út fyrir að Fjölnir gæti náð að komast yfir Tindastól fyrir fjórða leikhlutann! Það gekk þó ekki og í lokafjórðungnum náðu gestirnir frá Sauðárkróki að brjóta svæðisvörn Fjölnis og gátu skilið sig nægilega frá þeim til að sigla öruggum 88-100 sigri þrátt fyrir nokkrar hetjulegar tilraunir heimamanna á lokamínútunum.

Af hverju vann Tindastóll?

Tindastóll spilaði á köflum ágæta vörn en það sem vóg þyngra var sóknin þeirra. Þeir hittu á góðan leik hjá nokkrum lykilmönnum og settu mikilvæg skot þegar á reyndi.

Bestu menn vallarins

Sinisa Bilic var frábær fyrir Tindastól í kvöld, 27 stig, 8 fráköst og þrjár stoðsendingar. Hann setti 5/9 í þristum (55.6%) og var illvígur þegar Fjölnir reyndi að dekka hann í maður á mann.

Hjá Fjölni var Viktor Moses framlagshæstur með 36 stig og 9 fráköst.

Tölfræði sem vakti athygli

Þriggja stiga nýting Fjölnis var hrikalega í fyrri hálfleik en þeir gátu aðeins sett tvo þrista í fjórtán tilraunum (14% nýting). Þeir fundu illa körfuna fyrstu 20 mínúturnar í leiknum og gátu ekki grafið sig upp úr þeirra holu í seinni hálfleik.

Hvað gekk illa?

Fjölnir hitti hrikalega illa úr skotunum sínum í fyrri hálfleik og þrátt fyrir gott áhlaup í þriðja leikhluta var munurinn svo mikill að þeir náðu ekki í skottið á Tindastóli áður en að þeir tóku sitt eigið áhlaup í fjórða til að gera út um leikinn.  

Hvað næst?

Fjölnir heimsækir næst Keflavík og mun þar eiga við topplið Keflvíkinga sem tróna á toppi deildarinnar. Sá leikur verður föstudaginn 29. nóvember og verður í beinni á Stöð 2 Sport kl.18:30.

Tindastólsmenn taka næst á móti gömlu liði þjálfarans þeirra, Þór Þorlákshöfn, heima á Sauðárkróki í Síkinu. Sá leikur verður fimmtudaginn 28. nóvember kl.19:15.

Róbert: Skelfilegir í fyrri hálfleik.

Fjölnismenn áttu erfiðan leik í kvöld gegn andstæðingum sínum, Tindastóli. Róbert Sigurðsson, fyrirliði Fjölnis, var daufur í bragði eftir að hans menn sýndu ekki sína bestu frammistöðu í 88-100 tapi.

Róbert gat lítið sagt um fyrri hálfleikinn annað en að hann hafi verið skelfilegur. Það breyttist þó eitthvað í hálfleikshléinu hjá Fjölni. „Við fórum með fjandinn-hafi-það viðmót inn í seinni hálfleikinn,“ sagði Róbert og bætti við að svæðisvörnin sem að þeir gulklæddu hafi sett upp í hafi ekki sakað, heldur. „Við vorum virkari og fórum líka loksins að hitta,“ sagði hann og vísaði þar í hrikalega lélega skotnýtingu Fjölnismanna í fyrri hálfleik.

Áhangendur Fjölnis hafa ekki alltaf verið duglegir að mæta eða að láta í sér heyra en í þriðja leikhlutanum kviknaði aðeins undir þeim. Róbert þakkaði fyrir elju sinna stuðningsmanna.

„Ógeðslega gott að fá svona, frábært að fólk sé að mæta. Það hjálpaði okkur mikið á þessum kafla þar sem að við þurftum á því að halda,“ sagði hann, en Fjölnir skoraði 29 stig gegn ellefu stigum hjá andstæðingunum í þriðja leikhluta. Það dugði því miður ekki til.

„Leiðinlegt að við höfum ekki náð að vinna þennan leik fyrir áhorfendur okkar.“

Fjölnir átti erfitt uppdráttar lengst af í leiknum og virtist eins og leikmenn væru ekki alveg í takti á löngum köflum. „Við erum held ég þungir á okkur eftir að hafa tapað nokkrum mikilvægum leikjum,“ sagði Róbert, en Fjölnir hefur tapað nokkrum naumum leikjum undanfarið sem að þeir gátu alveg unnið.

„Hausinn var skringilega stilltur hjá okkur. Við mættum hræddir, eitthvað sem nýliðar eins og við megum ekki gera í þessari deild,“ sagði Róbert og hélt inn í klefa til að undirbúa sig og liðið sitt fyrir næsta leik gegn Keflavík í Keflavík eftir viku.

Pétur í leik með Stólunum.vísir/vilhelm
Pétur Rúnar: Vorum fullgóðir með okkur

Pétur Rúnar Birgisson var sáttur eftir að Tindastóll sigraði Fjölni í Dalhúsum í kvöld.

Leikurinn fór 88-100 en var miklu jafnari en sú staða gefur til kynna. Fjölnismenn komu brjálaðir út úr hálfleiknum og voru ekki langt frá því á tímabili að komast yfir gestina sem leiddu með 22 stigum eftir 20 mínútur.

„Ég held að við vorum fullgóðir með okkur í seinni hálfleiknum. Förum aðeins of mikið á hælana og höldum að þetta sé búið,“ sagði Pétur um áhlaup Fjölnis eftir hálfleikshléið. Heimamenn fór í svæðisvörn og skoruðu 29 stig gegn 11 stigum hjá Tindastóli í þriðja leikhluta.

„Við erum að fá góð skot, setjum þau bara ekki niður. Þá fá þeir löng fráköst og fara í hraðaupphlaup og ná að laga stöðuna,“ sagði leikstjórnandinn knái frá Sauðárkróki.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem að Tindastólsmenn koma linir út úr búningsklefanum í hálfleik og þá enduðu þeir á því að tapa gegn Val.

Pétur Rúnar þóttist fullviss um að engir af liðsfélögum hans voru að hugsa út í þann leik og allir hafi haldið einbeitingu þrátt fyrir slakan leikhluta. Þjálfarinn þeirra, Baldur Þór, skipti þar miklu máli.

„Baldur Þór er alltaf með sama hugarfar. Ein leikflétta í einu.“

Pétur gengst við því að hans menn megi þó ekki við svona leikhlutum. „Þetta er í annað skiptið sem við gerum þetta í hálfleik, að koma inn á með hangandi haus. En, körfubolti er leikur áhlaupa! Það var okkar að vera sterkir í lokin.“

Tindastólsmenn voru það vissulega í kvöld, enda kláruðu þeir leikinn með því að vinna fjórða leikhlutann með átta stigum. Þá hafa þeir unnið KR og Fjölni í tveimur ferðum til Reykjavíkur. Þeir héldu því heim norður um heiðar eftir aðra vel heppnaða ránsferð í höfuðborgina.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.