Körfubolti

Sportpakkinn: Þriðja tap Snæfells í röð

Arnar Björnsson skrifar
Chandler Smith skoraði 15 stig fyrir Snæfell.
Chandler Smith skoraði 15 stig fyrir Snæfell. vísir/vilhelm

Keflavík skoraði fimm fyrstu stigin gegn Snæfelli í Domino's deild kvenna í gærkvöldi og var með frumkvæðið allan tímann.

Daniela Wallen Morillo var sterk í Keflavíkurliðinu, skoraði 31 stig, tók tólf fráköst og gaf átta stoðsendingar. Irena Sól Jónsdóttir kom næst með 13 stig og Katla Rún Garðarsdóttir skoraði tólf.

Fimmtán stigum munaði á liðunum í hálfleik. Snæfell náði aldrei að saxa nógu mikið á forystuna til að gera leikinn spennandi. Keflavík vann 89-66.

Keflavík hefur unnið fjóra leiki en tapað þremur, með eins stigs mun fyrir KR, fimm stigum gegn Skallagrími á heimavelli og með 31 stigs mun fyrir Val. Á laugardag kemur KR í heimsókn í Blue höllina.

Anna Soffía Lárusdóttir og Chandler Smith voru stigahæstar hjá Snæfelli, skoruðu 15 stig hvor. Snæfell tapaði þriðja leiknum í röð, einu sigrarnir í vetur eru gegn Breiðabliki og Grindavík.

Klukkan 21:15 í kvöld verður þáttur um Domino's deild kvenna á Stöð 2 Sport þar sem farið verður yfir fyrstu sjö umferðirnar á leiktíðinni.

Klippa: Sportpakkinn: Öruggt hjá Keflvíkingum
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.