Handbolti

Andri: Ekkert flókið að verja víti

Benedikt Grétarsson skrifar
Andri í leik með Haukum.
Andri í leik með Haukum. vísir/vilhelm
„Þetta var rosalega skemmtilegur leikur að spila og gaman að þetta endaði okkar megin í dag. Skemmtilegustu bikarleikirnir eru svona hnífjafnir og ráðast á síðustu mínútunum,“ sagði markvörðurinn Andri Sigmarsson Scheving eftir 30-26 sigur Hauka gegn Val í 16 liða úrslitum Coca-Cola bikarkeppni HSÍ.

Andri varði 16 skot og var maður leiksins. Hann hefur þurft að verma varamannabekkinn mikið í vetur í skugga Grétars Ara Guðjónssonar en nýtti heldur betur tækifærið þegar Grétar náði sér ekki á strik í upphafi leiks.

„Maður verður bara að nýta þau tækifæri sem maður fær,“ segir Andri brosandi og bætir við: „Ég bakka bara Grétar upp þegar þess þarf. Hann var búinn að vera frábær í upphafi tímabilsins og á svo sannarlega skilið að fá góðan stuðning frá mér þegar þess þarf. Það er vörn og markvarsla sem klárar þetta, ekki spurning. Þar vannst leikurinn að mínu mati.“

Andri varði þrjú af fjórum vítum Valsmanna. Hver er galdurinn að verja svona vel í vítaköstum?

„Ég horfi bara á hvernig vítaskyttan beitir sér og reyni að elta boltann. Þetta er alls ekkert flókið,“ segir Andri léttur.

Markmiðið er skýrt hjá Haukum, sem hafa verið í vandræðum í bikarkeppninni undanfarin ár.

„Við ætlum alla leið og byrjum bara ferskir í næstu umferð,“ sagði markvörðurinn og vítabaninn Andri Sigmarsson Scheving að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×